Fótbolti

Segir Messi ekki á förum þrátt fyrir öll lætin

Anton Ingi Leifsson skrifar
Messi grípur væntanlega um höfuð sér útaf öllum látunum í Katalóníu.
Messi grípur væntanlega um höfuð sér útaf öllum látunum í Katalóníu. vísir/getty

Quique Setien, stjóri Barcelona, segir að þrátt fyrir öll lætin í kringum félagið þessar vikurnar muni Lionel Messi klára feril sinn hjá félaginu. Það hafa verið stormasamar vikur að undanförnu hjá spænska risanum.

Sex stjórnarmenn hættu hjá félaginu á dögunum þar sem þeir voru ósáttir við stjórnarhætti forsetans Josep Martia Bartomeu. Það hefur gustað um félagið en leikmenn félagsins hafa einnig tekið á sig 70% launalækkun samkvæmt miðlum á Spáni vegna kórónuveirunnar.

Setien, sem tók við Börsungum í janúar af Ernesto Valverde, segir að þrátt fyrir öll lætin þá muni Argentínumaðurinn ekki yfirgefa félagið úr þessu.

„Þetta eru eðlilegir hlutir hjá stóru félagi en leiðinlegi hluturinnn er að þetta rati í fjölmiðla. Það væri betra að vinna í rólegra umhverfi en svona eru hlutirnir. Ég held að það sem hefur gerst hafi haft áhrif á Messi hvort að hann ætti að vera áfram eða ekki. Ég er viss um að hann klári ferilinn á Camp Nou,“ sagði Setien.

Setien veit ekki hvað verður um spænsku deildina en heimsfaraldurinn sem nú ríður yfir hefur stöðvað flest allar knattspyrnudeildir í heiminum. Börsungar eru tveimur stigum á undan Real Madrid og óvíst er hvort að tímabilið verði klárað yfirhöfuð.

„Ég væri til í að verða meistari með því að klára deildina og vinna þetta á vellinum. Ég veit ekki hvað gerist ef við getum ekki klárað deildina en mér myndi ekki líða eins og sönnum meistara bara því við erum á undan Real núna. Við vorum þar líka þegar ég kom.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×