Innlent

Samið við Icelandair um lágmarksflugsamgöngur í sumar

Kjartan Kjartansson skrifar
Flugsamgöngur hafa meira eða minna lamast í kórónuveirufaraldrinum. Icelandair hefur flogið til þriggja áfangastað samkvæmt samningi við ríkið til að tryggja lágmarkssamgöngur til og frá landinu.
Flugsamgöngur hafa meira eða minna lamast í kórónuveirufaraldrinum. Icelandair hefur flogið til þriggja áfangastað samkvæmt samningi við ríkið til að tryggja lágmarkssamgöngur til og frá landinu. Vísir/Vilhelm

Til greina kemur að bæta flugferðum til Kaupmannahafnar og New York við ferðir til Boston, London og Stokkhólms með nýjum samningi sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur gert við Icelandair. Samningurinn er sagður tryggja lágmarksflugferðir til Evrópu og Bandaríkjanna fram undir lok júní.

Icelandair hefur flogið til þriggja áfangastaða samkvæmt tímabundnum samningi við ráðuneytið sem hefur verið endurnýjaðir nokkrum sinnum í vor. Markmið samninganna var að tryggja lágmarksflugsamgöngur til og frá landinu vegna ástandsins sem hefur skapast í kórónuveirufaraldrinum.

Ríkið greiðir að hámarki 300 milljónir króna vegna samningsins frá 17. maí til 27. júní. Tekjur Icelandair af ferðunum lækka greiðslur ríkisins. Ráðuneytið getur framlengt samninginn tvívegis, fyrst til 8. ágúst og aftur til 19. september. Komi til þess mun ríki mest greiða Icelandair 500 milljónir króna fyrir allt tímabilið, að því er segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Icelandair var eina flugfélagið sem bauð í samninginn þegar Ríkiskaup auglýsti eftir tilboðum á evrópska útboðsvefnum TED. Félagið flýgur tólf ferðir til Boston, London og Stokkhólms á tímabilinu. Verði unnt að fljúga til Kaupmannahafnar eða New York á samningstímanum getur ríkið ákveðið að skipta Stokkhólmi og Boston út fyrir þá áfangastaði í samráði við flugfélagið.

Drög að flugáætlun Icelandair næstu tvær vikurnar með fyrirvara um að dagsetningar geti breyst og ferðir fallið niður:

  • Boston (Logan International – BOS) 21., 23., 28. og 30. maí.
  • London (Heathrow – LHR) 17., 20., 24. og 27. maí.
  • Stokkhólmur (Arlanda – ARN) 20., 23., 27. og 30. maí.

Tengdar fréttir

Samningur ríkisins við Icelandair um flugferðir framlengdur

Icelandair heldur áfram að bjóða upp á lágmarksflugferðir til þriggja áfangastaða samkvæmt endurnýjuðu samkomulagi við íslensk stjórnvöld. Alls mun félagið fljúga 22 tvær ferðir til og frá landinu til og með 16. maí.

Samið um sextán ferðir til Boston, London og Stokkhólms

Icelandair mun fljúga sextán ferðir til Boston, London og Stokkhólms samkvæmt samningi sem félagið hefur gert við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið. Samningurinn á að tryggja lágmarksflugsamgöngur til og frá landinu í kórónuveirufaraldrinum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×