Icelandair heldur áfram að bjóða upp á lágmarksflugferðir til þriggja áfangastaða samkvæmt endurnýjuðu samkomulagi við íslensk stjórnvöld. Alls mun félagið fljúga 22 tvær ferðir til og frá landinu til og með 16. maí.
Fyrri samningur Icelandair og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins rann út í gær. Markmið hans var að tryggja lágmarksflugsamgöngur til landsins á meðan á kórónuveirufaraldrinum stendur. Hann kvað á um sextán ferðir til og frá Boston, London og Stokkhólms.
RÚV greindi frá því í dag að samningurinn hefði verið endurnýjaður. Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir við Vísi að endurnýjaða samkomulagið sé með svipuðu sniði og það fyrra og nái til sömu áfangastaða.
Á vef Icelandair kemur fram að flogið verður fjórum sinnum til og frá Boston í Bandaríkjunum, fimm sinnum til og frá Heathrow á Englandi og tvisvar til og frá Stokkhólmi næstu eina og hálfu vikuna.
Icelandair siglir nú ólgusjó líkt og fleiri flugfélög vegna gríðarlegs samdráttar í eftirspurn eftir flugferðum í faraldrinum. Félagið hefur sagt upp á þriðja þúsund starfsmönnum og stefnir á hlutafjárútboð til að styrkja rekstrargrundvöll sinn.
Hér fyrir neðan má sjá flugáætlun Icelandair til 16. maí:
Boston Logan International – BOS
FI634 // BOS-KEF // 7., 9., 14. og 16. maí
FI635 // KEF-BOS // 7., 9., 14. og 16. maí
London Heathrow – LHR
FI450 // KEF-LHR // 6., 8., 10., 13. og 15. maí
FI451 // LHR-KEF // 6., 8., 10., 13. og 15. maí
Stokkhólmur Arlanda – ARN
FI306 // KEF-ARN // 9. og 16. maí
FI307 // ARN KEF // 9. og 16. maí