Innlent

Samið um sextán ferðir til Boston, London og Stokkhólms

Kjartan Kjartansson skrifar
Tekjur sem Icelandair fær mögulega af fluginu koma til lækkunar kostnaðar ríkissjóðs við flugferðirnar.
Tekjur sem Icelandair fær mögulega af fluginu koma til lækkunar kostnaðar ríkissjóðs við flugferðirnar. Vísir/Vilhelm

Icelandair mun fljúga sextán ferðir til Boston, London og Stokkhólms næstu vikurnar samkvæmt samningi sem félagið hefur gert við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið. Samningurinn á að tryggja lágmarksflugsamgöngur til og frá landinu í kórónuveirufaraldrinum en kostar ríkið að hámarki hundrað milljónir króna.

Ferðirnar verða farnar frá morgundeginum til og með þriðjudeginum 5. maí, að því er kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu. Þar eru færð þau rök fyrir samningnum að millilandaflug gegni afar mikilvægu öryggishlutverki fyrir íslenska þjóð og þessar flugtengingar séu meðal annars nauðsynlegar til að tryggja að íslenskir ríkisborgarar, sem staddir eru erlendis, geti fundið sér leið heim.

Ríkið mun greiða að hámarki 100 milljónir krónur vegna samningsins en mögulegar tekjur Icelandair af flugunum munu lækka greiðslur. Samningurinn byggir á heimild í lögum um opinber innkaup til samningskaupa án útboðs vegna neyðarástands af ófyrirsjáanlegum atburðum. Við slíkar aðstæður væri ekki unnt að standa við fresti í útboðum.

Icelandair mun fljúga samtals 16 ferðir (32 flugleggi) til áfangastaðanna þriggja. Flugáætlun er með eftirfarandi hætti, með þeim fyrirvara að dagsetningar geta breyst ef þörf krefur:

• Boston (Logan International – BOS) 16., 18., 23., 25., 30. apríl og 2. maí.

• London (Heathrow – LHR) 19., 22., 24., 26., 29. apríl og 1. og 3. maí.

• Stokkhólmur (Arlanda – ARN) 18. og 25. apríl og 2. maí.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×