Fótbolti

Arnór rifjaði upp markið gegn Real Madrid: „Þeir voru helvíti hrokafullir“

Sindri Sverrisson skrifar
Arnór Sigurðsson kom til CSKA Moskvu sumarið 2018.
Arnór Sigurðsson kom til CSKA Moskvu sumarið 2018. VÍSIR/GETTY

„Þetta er klárlega hápunkturinn á dvölinni hingað til,“ sagði Arnór Sigurðsson, landsliðsmaður í fótbolta og leikmaður CSKA Moskvu, þegar hann rifjaði upp frammistöðu sína gegn stórveldi Real Madrid.

Arnór skoraði fyrsta mark sitt fyrir CSKA í 1-2 tapi gegn Roma á heimavelli í nóvember 2018, í Meistaradeild Evrópu. Hann bæði skoraði svo og lagði upp mark í 3-0 sigri gegn sigursælasta liði keppninnar frá upphafi, Real Madrid, á Santiago Bernabeu mánuði síðar.

„Maður var einhvern veginn ekkert að hugsa um þetta en svo kom stoðsendingin og þá peppast maður upp. Svo þegar markið kemur þá var maður einhvern veginn hættur að trúa þessu. Þetta var svo óraunverulegt. Þetta var gæsahúð alveg í gegn,“ sagði Arnór í Sportinu í kvöld. Þeir Hörður Björgvin Magnússon, sem báðir leika með CSKA, eru staddir hér á landi og mættu í heimsókn til Rikka G í Sportinu í kvöld.

Rikki spurði Arnór hvort einhverjar af stjörnum Madridar-liðsins hefðu sýnt honum hroka í leiknum, en á meðal þeirra sem spiluðu leikinn voru Karim Benzema, Isco, Toni Kroos og Gareth Bale. „Það var meira eftir leik, bæði í Moskvu og svo eftir leikinn í Madrid. Þá voru þeir helvíti hrokafullir,“ sagði Arnór.

Klippa: Sportið í kvöld - Arnór um leikinn gegn Real Madrid

Sportið í kvöld er á dagskrá Stöðvar 2 Sports á þriðjudags-, miðvikudags- og fimmtudagskvöldum klukkan 20.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.