Innlent

Raf­væðingunni ætlað að draga úr nú­verandi losun um 20 prósent

Atli Ísleifsson skrifar
Frá undirrituninni við Skrafabakka í dag.
Frá undirrituninni við Skrafabakka í dag. Vísir/Egill

Viljayfirlýsing um að taka í notkun háspennibúnað fyrir flutningaskip við Sundabakka og Vogabakka í Reykjavík var undirrituð við Skarfabakka í hádeginu í dag.

Það voru fulltrúar umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, Reykjavíkurborgar, Faxaflóahafna, Veitna, Samskips og Eimskips sem undirrituðu viljayfirlýsinguna en búnaðinum er ætlað að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda og staðbundinni loftmengun frá starfsemi hafnarsvæða í Reykjavík.

Fyrsti áfanginn

Í tilkynningu frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu kemur fram að um sé að ræða fyrsta áfanga í því verkefni að tryggja raftengingar fyrir stærri skip í höfnum á Íslandi.

„Áætlað er að rafvæðingin í þessum áfanga komi til með að draga úr bruna á yfir 660 þúsund lítrum af olíu og draga þannig úr losun koldíoxíðs um 9.589 tonn eða um 20% af núverandi losun á starfssvæði Faxaflóahafna.

Faxaflóahafnir, Veitur og ríkið leggja til 100 m.kr. hvert um sig í þennan fyrsta áfanga en ef allt gengur að óskum munu flutningaskip Eimskipa og Samskipa geta tengst landrafmagni á næsta ári. Verkefnið er í samræmi við stefnu Íslands í loftslagsmálum og í samræmi við Loftslagsstefnur Reykjavíkurborgar og Faxaflóahafna.

Faxaflóahafnir, Veitur og ríkið leggja til 100 m.kr. hvert um sig í þennan fyrsta áfanga en ef allt gengur að óskum munu flutningaskip Eimskipa og Samskipa geta tengst landrafmagni á næsta ári.Vísir/Vilhelm

Landtenging skipa við rafmagn er mikilvægur þáttur í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og bæta loftgæði við hafnir. Á síðustu árum hafa möguleikar á því að tengja stærri skip landrafmagni verið kannaðir ítarlega og nú er fyrsta skrefið stigið með undirritun viljayfirlýsingar um tengingu skipa í Sundahöfn.

Faxaflóahafnir hafa á undanförnum árum boðið landtengingar fyrir báta og minni skip. Þetta verkefni markar þau tímamót að einnig verður hægt að tengja stór skip við landrafmagn í höfnum. Á næstu árum áforma Faxaflóahafnir að hefja landtengingar fyrir skemmtiferðaskip, en bygging dreifistöðvar Veitna við Sægarða er forsenda þess verkefnis,“ segir í tilkynningunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×