Innlent

Færri leituð á COVID-göngudeild Landspítalans um páskana

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Stofurgangur á A-19.
Stofurgangur á A-19. Ljósmynd/Landspítali/Þorkell

Komum á COVID-göngudeild Landspítalans fækkaði um páskana. Yfirlæknir segir það til marks um að dregið hafi úr faraldrinum. Nærri átta hundruð manns eru nú í eftirliti hjá deildinni.

Síðustu daga hefur þeim fækkað sem greinst hafa með kórónuveiruna hér á landi. Í gær greindust aðeins tólf með veiruna og virðist faraldurinn vera í rénun. „Það endurspeglast alveg á starfseminni hjá okkur á göngudeildinni að það dregur úr faraldrinum þannig að það eru færri komur til okkar núna yfir sjálfa páskana heldur en voru fyrir páska,“ segir Ragnar Freyr Ingvarsson læknir sem stýrir COVID-göngudeild Landspítalans.

Nærri átta hundruð manns eru í eftirliti á göngudeildinni samkvæmt upplýsingum sem viðbragðsstjórn og farsóttarnefnd spítalans sendi frá sér í gær. Ragnar segir starfið umfangsmikið enda komi á annað hundrað manns að því. „Við erum með vaska sveit af bæði læknum og hjúkrunarfræðingum sem fylgir hverjum einasta einstakling reglubundið og við reynum að kalla þig inn áður en þú veikist. Þannig að fólk er að koma til okkar í nokkuð svipuðu ástandi. Þannig við erum að reyna að fyrirbyggja það að því versni enn frekar,“ segir Ragnar

Aðspurður um hvort að þær aðgerðir sem gripið hafi verið til á spítalanum séu að virka segir Ragnar ljóst að eitthvað séu Íslendingar að gera rétt. „Það er erfitt að segja fyrr en að við gerum þetta allt upp. Ég er algjörlega sannfærður um það að nálgun okkar Íslendinga, hvort sem það er hvað Þórólfur og Alma og Víðir hafa boðið okkur að gera og svo þessi kröftuga viðspyrna frá Landspítalanum. Ég held að allt þetta saman sé að gera það að verkum að okkur virðist takast að halda betur á spöðunum hér á landi en annars staðar,“ segir Ragnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×