Innlent

Stal fullri inn­kaupa­kerru í gegnum sjálfs­af­greiðslu­kassa

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá Reykjanesbæ.
Frá Reykjanesbæ. Vísir/vilhelm

Lögreglu á Suðurnesjum hefur borist kæra vegna þjófnaðar í verslun í Reykjanesbæ. Eftirlitsmyndavélar í versluninni sýna hvar karlmaður kom inn með innkaupakerru, fyllti hana af varningi, gekk að sjálfsafgreiðslukassa, tók þar burðarpoka sem hann lagði ofan á vörurnar í kerrunni og gekk svo út með hana án þess að borga, að því er segir í tilkynningu frá lögreglu.

Á meðal þess sem maðurinn tók voru nítján pakkar af kjúklingabringum, kassi af Pepsi Max auk mikils magns af matvælum og hreinlætisvörum. Maðurinn sem grunaður er um þjófnaðinn hefur komið við sögu lögreglu á höfuðborgarsvæðinu vegna þjófnaðarmála.

Þá var flugeldi kastað inn um opinn glugga íbúðarhúsnæðis á Suðurnesjum um helgina, þar sem hann sprakk. Minniháttar tjón varð á húsnæðinu. Í tilkynningu segir að nokkur ungmenni hafi þar reynst vera að verki.

Einnig var tilkynnt um skothvelli við Garðskagavita þar sem reyndist um flugeldaskot að ræða. Lögregla bendir á í tilkynningu að öll meðferð flugelda er óheimil nema á tímabilinu 28. desember til 6. janúar að báðum dögum meðtöldum. Því er beint til fólks að virða þær reglur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×