Lífið

Lygileg saga af því þegar Jóhann Jóhannsson aðstoðaði Pál Óskar við lagið Stanslaust stuð

Stefán Árni Pálsson skrifar
Páll Óskar og Jóhann Jóhannsson heitinn tóku ákvörðun um að gera lag saman sumarið 1993 og það í New York.
Páll Óskar og Jóhann Jóhannsson heitinn tóku ákvörðun um að gera lag saman sumarið 1993 og það í New York.

„Ég mæti til New York og er ekki búinn að vera þar lengi þegar ég labba inn á minn fyrsta dragklúbb. Þá er ég og Maríus, vinur minn, búnir að vera gera dragshow hér á Íslandi á stað sem hét Moulin Rouge við Hlemm og alveg galið dragtímabil þar að baki. Ég arka inn á klúbb sem hét Crow Bar sem var mekka dragsins í New York þarna sumarið 1993,“ segir Páll Óskar Hjálmtýsson í löngu tveggja tíma viðtali við Ívar Guðmundsson á Bylgjunni í morgun. Þar sagði hann söguna hvernig lagið Stanslaust stuð var til.

„Ég fer þarna í prufu og fæ djobb og treð þarna upp í einhverjar fjórar helgar í röð. Í einum af labbitúrunum mínum þarna í East Village voru staddir Óttarr Proppé og Björn Blöndal sem voru í rokkhljómsveitinni Ham og Ham var að túra í New York á þessum tíma þetta sumarið og akkúrat á sama tíma og ég var þarna. Sagan segir að Óttarr Proppé hafi bent yfir götuna og bent á mig og sagt, er þetta ekki Páll Óskar? Og Björn Böndal hafi þá svarað. Það er alveg sama hver þetta er, þetta er örugglega kynvillingur,“ segir Páll sem náði að hitta þá félaga síðar og skellti sér á tónleika.

„Ég varð algjör grúppía á þeim giggum sem þeir tóku þarna og við náðum að ræða saman. Ég og Jóhann Jóhannsson heitinn sem seinna meir vann Golden Globe verðlaun og var tilnefndur til Óskarsins fyrir sína sköpun í kvikmyndum og hitti líka Sigurjón Kjartansson. Ég og Jói tókum mjög góðan fund á einhverjum vampírubar. Þar var bara tekin ákvörðun um að við myndum taka upp plötu,“ segir Páll en Jóhann lét hann hafa grunn að lagi og bað hann um að semja laglínu og texta við lagið. Palli gerði það og úr varð lagið Stanslaust stuð sem er eitt vinsælasta lag popparans sem varð fimmtugur á dögunum. 

Hlusta má á viðtalið við Pál Óskar í heild sinni hér að neðan.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.