Innlent

Suður­nesja­menn kalla eftir því að ríkis­stjórnin ráðist í frekari að­gerðir

Eiður Þór Árnason skrifar
Páll Ketilsson, ritstjóri Víkurfrétta, talar fyrir því að ríkisstjórnin ráðist í frekari aðgerðir.
Páll Ketilsson, ritstjóri Víkurfrétta, talar fyrir því að ríkisstjórnin ráðist í frekari aðgerðir. vísir/samsett

Suðurnes hafa farið einna verst út úr þeirri niðursveiflu sem nú ríður yfir landið vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar og hafa sumir íbúar kallað eftir sértækum ríkisaðgerðum á svæðinu.

Páll Ketilsson, ritstjóri Víkurfrétta, ræddi stöðuna í morgunþættinum Bítinu í dag og talar fyrir því að ríkisstjórnin ráðist í frekari aðgerðir.

„Við vonumst til þess núna að ríkisvaldið horfi á þetta eins og það er. Ástandið er greinilega verst hérna, það er talað um að atvinnuleysi geti farið yfir 20, jafnvel upp í 24 prósent. Það er nú þegar í 17 prósentum og er að hækka.“

Leggur til að farið verði í framkvæmdir

Hann segir að til að mynda hægt að leggjast í mannfrekar framkvæmdir.

„Það er fullt af verkefnum sem hægt er að fara í mjög auðveldlega hérna nálægt okkur, sem eru tilbúin að fara í, þannig að ég vona bara að ríkisstjórnin horfi á það.“

Til að mynda sé auðvelt núna að fara í framkvæmdir á Flugstöð Leifs Eiríkssonar í ljósi þess að hún sé nú meira og minna tóm.

„Ég veit að Isavia er tilbúið og undirbúið í að fara í margt sem hægt er að gera, mannfrekar framkvæmdir sem við erum með á teikniborðinu og undirbúin verkefni sem hægt væri að fara í bara mjög fljótlega.“

„Það eru allar aðstæður mjög frábærar núna getum við sagt á þessum skrítnu tímum. Það er hægt að fá hagstæðari tilboð og eins og ég segi að slá margar flugur í einu höggi. Atvinnuleysi myndi minnka og síðast en ekki síst það sem þarf virkilega að gera, það þarf að bæta Keflavíkurflugvöll.“

Kallar eftir því að þingmenn og bæjarstjórnir taki höndum saman

Er hægt að gulltryggja það að ef það verður farið í þessar framkvæmdir að það verði fólk þarna á staðnum sem fái þessa vinnu?

„Mér finnst það mjög líklegt og ég veit að það hefur verið stefna Isavia að veita sem mest til fólks hér á Suðurnesjum. Það er náttúrulega hentugra fyrir Isavia líka að vera með fólk héðan af svæðinu og ég veit bara að það hefur verið stefna hjá þeim að gera það eins og hægt er.“

Páll segir að einnig væri hægt að ráðast í fleiri verkefni á svæðinu.

„Auðvitað eru fleiri framkvæmdir sem ég veit að eru á lista sem ríkisstjórnin hefur fyrir framan sig. Það er ýmislegt hérna, heilbrigðisstofnunin og Reykjanesbrautin og eitthvað fleira.“

Hann kallar eftir því að bæjarstjórnir á Suðurnesjum og þingmenn svæðisins taki höndum saman og setji meiri kraft í þessa vinnu.

„Við trúum ekki öðru en að ríkisvaldið, sem þarf að koma hérna mjög sterkt inn, horfi til þessa svæðis sem er að blæða út núna þessa dagana. Það verður bara að horfa á það, hlutirnir eru verstir hérna, við erum svo mikið tengdir fluginu og ferðaþjónustunni að það þarf að hjálpa til, það er bara staðan.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×