Innlent

Lögreglumenn lausir úr sóttkví eftir útkall vegna bílveltu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Lögreglumennirnir sem kallaðir voru á vettvang voru settir í úrvinnslusóttkví þar sem grunur lék á kórónuveirusmiti meðal farþega bílsins sem valt.
Lögreglumennirnir sem kallaðir voru á vettvang voru settir í úrvinnslusóttkví þar sem grunur lék á kórónuveirusmiti meðal farþega bílsins sem valt. vísir/vilhelm

Þrír sluppu með minniháttar meiðsl í umferðarslysi við Þingvelli í nótt. Fólkið í bílnum átti að vera í sóttkví og var grunur um kórónuveirusmit hjá einu þeirra. Lögreglumenn og sjúkraflutningamenn sem kallaðir voru á vettvang þurftu því að fara í úrvinnslusóttkví eftir að hafa sinnt fólkinu. Sýni úr farþeganum reyndist í dag vera neikvætt og eru viðbragðsaðilar því komnir úr sóttkví.

Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir í samtali við fréttastofu að þetta hafi reynst lögreglunni erfitt, sérstaklega þar sem ráðstafanir hafi verið gerðar og lögreglumenn megi ekki flakka á milli vakta.

„Við þurftum að ræsa út aukafólk í nótt til að dekka þessa sem duttu út. Sem betur fer fengum við svo niðurstöður upp úr hádegi í dag að sýnin voru í lagi þannig að þau geta mætt aftur á vakt í kvöld,“ segir Sveinn.

Senda þurfti tvo lögreglumenn og fjóra sjúkraflutningamenn í úrvinnslusóttkví eftir bílveltuna að sögn Sveins. Lögreglumaður frá Hvolsvelli var kallaður á vaktina og var hann með eftirlit á vegum en fór ekki inn á lögreglustöðina á Selfossi.

„Þetta er ekki bara svona hjá okkur. Alls staðar er það þannig að lögreglan er að skipta upp öllum vinnustöðum, það hittast engar vaktir og það eru engar samgöngur á milli vakta. Þannig að það er mjög erfitt hjá okkur þegar það dettur út mannskapur. Ef það dettur út ein vakt þá eigum við engan mannskap á lager til að fara inn á vaktina.“

Víðir Reynisson, hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, ítrekaði á upplýsingafundi í dag að fólk í sóttkví ætti að halda sig heima við.

Fréttin hefur verið uppfærð. Í fyrri útgáfu kom fram að þrír sjúkraflutningamenn hafi verið í sóttkví en þetta hefur nú verið leiðrétt.


Tengdar fréttir

Ekki í boði að gera ekki neitt

Ekkert liggur fyrir um það hvort til greina komi að útvíkka löggjöf um laun í sóttkví að sögn félags- og barnamálaráðherra. Forseti Alþýðusambands Íslands segir nauðsynlegt að réttarstaða viðkvæmra hópa verði tryggð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×