Innlent

Tryggja vaktaálagsauka hjúkrunarfræðinga til næstu mánaða

Sylvía Hall skrifar
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir aðstæður í samfélaginu sýna að allar ráðstafanir sem skerða kjör hjúkrunarfræðinga séu fráleitar.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir aðstæður í samfélaginu sýna að allar ráðstafanir sem skerða kjör hjúkrunarfræðinga séu fráleitar. Vísir/Vilhelm

Vaktaálagsauki sem hjúkrunarfræðingar á Landspítala hafa fengið vegna tilraunaverkefnis spítalans verður framlengdur til næstu mánaða og nauðsynlegar fjárveitingar verða tryggðar. Þetta kemur fram í bréfi sem fjármála- og efnahagsráðherra og heilbrigðisráðherra hafa sent forstjóra Landspítalans.

Vaktaálagsaukinn var tilraunaverkefni sem sett var af stað árið 2017 á Landspítalanum og var tilgangur verkefnisins að auka hvata hjúkrunarfræðinga til þess að sinna vinnuskyldu sinni utan dagvinnumarka. Upphaflega átti verkefnið að standa í sex mánuði en hefur verið framlengt þrisvar sinnum.

Verkefninu átti að ljúka um síðustu áramót en á vef Stjórnarráðsins segir að vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem nú eru uppi sé mikilvægt að Landspítalinn framlengi greiðslur samkvæmt verkefninu næstu mánuði, eða allt að 1. október.

Þá er haft eftir Bjarna Benediktssyni fjármála- og efnahagsráðherra að fyrirhugaðar séu grundvallarbreytingar í þeim samningum vegna vaktavinnufyrirkomulagsins.

„Vonandi hjálpar framlenging á greiðslum fyrir álag vegna vakta til að ljúka kjaraviðræðum samninganefndar ríkisins og hjúkrunarfræðinga farsællega. Ég vil trúa því," segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir aðstæður í samfélaginu sýna að allar ráðstafanir sem skerða kjör hjúkrunarfræðinga séu fráleitar. Álagið á heilbrigðisstéttir hafi aldrei verið meira en nú vegna kórónuveirufaraldursins.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×