Innlent

Af hverju leggst veiran harðar á karla en konur?

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Franskur karlmaður sprittar sig áður en hann gengur inn í búð. Ein tilgáta um kynjamuninn snýr að því hvort karlar þvoi sér e.t.v. minna um hendurnar en konur.
Franskur karlmaður sprittar sig áður en hann gengur inn í búð. Ein tilgáta um kynjamuninn snýr að því hvort karlar þvoi sér e.t.v. minna um hendurnar en konur. Vísir/getty

Ýmislegt bendir til þess að karlar séu í meiri hættu á að veikjast alvarlega af kórónuveirunni. Ný bresk rannsókn sýnir fram á að karlmenn þar í landi áttu talsvert meira á hættu að látast úr veirunni en konur. En hvað veldur þessum kynjamun? Þessu reynir Arnar Pálsson, erfðafræðingur og prófessor í lífupplýsingafræði við Háskóla Íslands, að svara í ítarlegri grein á Vísindavefnum sem birtist í dag.

Ljóst er að ýmislegt hefur áhrif á það hversu alvarlega fólk veikist af kórónuveirunni. Undirliggjandi sjúkdómar og aldur eru til að mynda þættir sem skipta máli í því samhengi, líkt og talsvert hefur verið fjallað um.

Fyrstu tölur um dauðsföll af völdum veirunnar bentu jafnframt til þess að karlar væru í meiri hættu á að veikjast alvarlega af Covid-19 en konur. Þetta virðist rétt, að því er fram kemur í svari Arnars, en ekki er vitað hvort aðeins kynið sé þar áhrifaþáttur.

Karlkyns öryggisverðir og kokkar í mestri hættu

Lagt er mat á ýmsa áhættuþætti í OpenSAFELY, nýrri breskri rannsókn, þar sem greind voru gögn í sjúkraskrám sautján milljón Breta. Þessi gögn voru svo samþætt við lista yfir andlát af völdum Covid-19 og byggir á dánartíðni á tímabilinu 1. febrúar 2020 til 25. apríl 2020.

Sky-fréttastofan greindi frá niðurstöðum rannsóknarinnar á vef sínum í gær. Þar var því slegið upp að karlkyns öryggisverðir, kokkar og leigubílstjórar væru á meðal þeirra sem líklegastir væru til að látast úr Covid-19.

Enn fremur sýna niðurstöðurnar að hætta á andláti sýktra karlmanna var um tvöföld umfram kvenna. „Margar aðrar rannsóknir og greiningar hafa gefið svipað mynstur í mismunandi löndum, þó matið á áhættuaukningunni sé mismunandim“ segir í svari Arnars.

Arnar Pálsson, erfðafræðingur og prófessor í lífupplýsingafræði.Vísir/Þorbjörn Þórðarson

Handþvottur og ónæmiskerfið

En hvað skýrir þennan kynjamun? „Svarið er enn á huldu. Mögulega er munurinn vegna ytri aðstæðna, umhverfis í sinni víðustu mynd, eða innri þátta, það er erfða og lífeðlisfræði. Eins gæti verið um samspil umhverfis og erfða að ræða,“ skrifar Arnar.

Þannig gæti verið að kynjamunurinn skýrist af félagslegum, menningarlegum eða atferlislegum þáttum að hluta.

„Margar mismunandi tilgátur hafa verið settar fram. Hittast karlar oftar utan heimilis? Eru þeir með viðkvæmari öndunarfæri vegna vinnuumhverfis eða lifnaðarhátta? Þvo þeir sér sjaldnar um hendur og sýkjast því af stærri skammti af veirunni? Reykja karlmenn aðeins meira en konur og einnig oftar? Eðli málsins samkvæmt er mjög erfitt að meta þessa þætti, eins og umhverfisþætti almennt. Stóra áskorunin er að þættirnir skipta hundruðum og jafnvel þúsundum og mælingar á þeim eru mikilli óvissu háðar. Lífeðlisfræðilega eru konur og karlar þó ólík um marga þætti,“ segir í svari Arnars.

Þá snúa margar tilgátur um mun á áhrifum veirunnar eftir kynjum um ónæmiskerfið.

„Ein er sú að mismunur í sterabúskap karla og kvenna geti haft ólík áhrif á ónæmiskerfið. Önnur tilgáta er að vegna þess að X-litningar bera gen sem tengjast ónæmiskerfinu séu konur betur varðar með sín tvö eintök af þeim litningi. Því til stuðnings er sú staðreynd að genin fyrir ónæmisviðtakana TLR7 og TLR8 eru á X-litningi karla. Þessir viðtakar binda einþátta RNA úr veirum og ræsa ónæmiskerfið. Erfðaefni veirunnar sem veldur COVID-19 er einmitt á því formi,“ skrifar Arnar.

Svar Arnars á Vísindavefnum má nálgast í heild hér.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×