Fótbolti

Van Persie vill að Van Marwijk verði áfram landsliðsþjálfari

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Robin van Persie, leikmaður Arsenal og hollenska landsliðsins, vonast til þess að Bert van Marwijk verði áfram landsliðsþjálfari eftir að EM 2012 lýkur næsta sumar.

Þá rennur samningur van Marwijk út og hefur hann gefið í skyn að hann vilji þá snúa sér aftur að því að þjálfa félagslið. Hann þjálfaði áður fyrr lið Dortmund og Feyenoord.

Van Marwijk stýrði Hollandi alla leið í úrslitaleik HM í Suður-Afríku í fyrra og vill van Persie halda honum fram yfir næstu heimsmeistarakeppni, í Brasilíu árið 2014.

„Hann gerir sína leikmenn að betri knattspyrnumönnum," sagði van Persie við hollenska fjölmiðla. „Hann heldur öllum á tánum og krefst þess að við séum upp á okkar allra besta. Ekki allir þjálfarar vita hvernig þeir eiga að ná því fram hjá sínum leikmönnum."

„Honum hefur tekist að starfa sem þjálfari - ekki knattspyrnustjóri sem situr á afturendanum og segir eitthvað af og til. Það hefur virkað vel og ég vona að okkur takist að halda áfram að þróa okkar leik eftir EM 2012."

Holland mætir Brasilíu í vináttulandsleik á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×