Innlent

Sveinbjörg vill fá afrit af starfslokasamningi Reynis

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
"Um varhugavert fordæmi er að ræða við gerð starfslokasamninga þegar forsvarsmenn fyrirtækja í eigu borgarinnar hafa gerst brotlegir við lög, siðareglur, eigendastefnu og farið út fyrir valdmörk sín.“
"Um varhugavert fordæmi er að ræða við gerð starfslokasamninga þegar forsvarsmenn fyrirtækja í eigu borgarinnar hafa gerst brotlegir við lög, siðareglur, eigendastefnu og farið út fyrir valdmörk sín.“
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, óskaði á fundi borgarráðs í gær eftir afriti af starfslokasamningi sem Strætó bs. gerði við Reyni Jónsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra Strætó. Reynir lét af störfum hjá félaginu 24.nóvember síðastliðinn. Tíu dögum áður hafði Sveinbjörg Birna sagt á fundi borgarráðs að Reyni sé ekki stætt á að gegna stöðu framkvæmdastjóra. Hún lagði því fram tillögu þess efnis að borgarráð beini því til stjórnar Strætó að hlutast til um ráðningarsamning við Reyni.

Sveinbjörg Birna vill núna vita hvaða lögfræðiráðgjafar stjórn Strætó naut varðandi starfslok Reynis „þar sem um varhugavert fordæmi er að ræða við gerð starfslokasamninga þegar forsvarsmenn fyrirtækja í eigu borgarinnar hafa gerst brotlegir við lög, siðareglur, eigendastefnu og farið út fyrir valdmörk sín,“ að því er fram kemur í fyrirspurn Sveinbjargar. Þá óskar hún eftir að fá afrit af minnisblaði, hafi það verið gert.

Fyrirspurnina í heild má sjá hér fyrir neðan.

Framsókn og flugvallarvinir óska eftir að fá afrit af starfslokasamningi á milli stjórnar Strætó bs. og fyrrverandi framkvæmdarstjóra, sem og að upplýst verði um hvaða lögfræðiráðgjafar stjórn Strætó bs. naut varðandi starfslok framkvæmdastjóra, þar sem um varhugavert fordæmi er að ræða við gerð starfslokasamninga þegar forsvarsmenn fyrirtækja í eigu borgarinnar hafa gerst brotlegir við lög, siðareglur, eigendastefnu og farið út fyrir valdmörk sín. Hafi verið gert minnisblað, þá óskast afrit af því. Skv. 5.3.1 kafla eigendastefnu Strætó bs. segir að stjórn Strætó bs. fari með málefni fyrirtækisins á milli eigendafunda og hafi eftirlit með að skipulag fyrirtækisins og starfsemi sé jafna í réttu og góðu horfi og í samræmi við stefnu eigenda.

Stjórn skal í því skyni tryggja skilvirka ferla um innra eftirlit og innri endurskoðun. Óskað er eftir upplýsingum um það hvaða skilvirku ferla um innra eftirlit og endurskoðun stjórn Strætó bs. hefur tryggt frá apríl 2013, eða frá því að eigendastefnan var samþykkt. Þá óskast upplýsingar um hver sinnir innri endurskoðun hjá félaginu. Í kafla 5.3.2 eigendastefnu segir að stjórn Strætó bs. hafi reglubundið eftirlit með að framkvæmdastjóri fylgi fjárhags- og starfsáætlun eftir og að stjórn Strætó bs. annist um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna fyrirtækisins.

Óskað er eftir upplýsingum frá stjórn Strætó bs. um a) hvernig og hvaða aðferðir stjórnin notar til að hafa eftirlit með að framkvæmdastjóri fylgi fjárhags- og starfsáætlun eftir og til hvaða aðgerða stjórnin grípi eða geta gripið til þegar bregðast þarf við ef stjórnin verður þess áskynja að brotalöm sé í starfi framkvæmdastjóra og b) hvaða aðferðir stjórn Strætó bs. notar til að hafa eftirlit með bókhaldi og meðferð fjármuna fyrirtækisins og til hvaða aðgerða stjórnin getur gripið eða grípur ef upp kemst um bókhaldsóreiðu og meðferð fjármuna.


Tengdar fréttir

Reynir hættur hjá Strætó

Framkvæmdastjóri Strætó lætur af störfum eftir að hafa verið látinn selja jeppann.

Sveinbjörg Birna vill að Reynir verði rekinn

Segir Reyni Jónsson, framkvæmdastjóra Strætó BS, hafa farið út fyrir valdsvið sitt og því sé honum ekki lengur stætt á að gegna stöðu sinni áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×