
Innlent
Mótmæla með auglýsingu
Framsóknarkonur óttast að formaður flokksins ætli að setja Siv Friðleifsdóttur, umhverfisráðherra, út úr ríkisstjórninni. Þær hafa keypt heilsíðuauglýsingu í dagblöðum á morgun þar sem skorað verður á þingflokk Framsóknar að virða lög flokksins um jafnrétti. 40 framsóknarkonur skrifa undir áskorun á þingflokk Framsóknarflokksins sem birt verður í dagblöðum á morgun. Þar er skorað á þingflokkinn að virða lög flokksins um jafnrétti og jafnframt að hann standi undir væntingum kjósenda við val á ráðherrum nú þegar Framsóknarflokkurinn taki við forsæti í ríkisstjórn. Bent er á að helmingur kjósenda Framsóknarflokksins séu konur. Halldór Ásgrímsson, formaður framsóknar telur ekki tilefni fyrir framsóknarkonur að birta slíka auglýsingu. Sjónarmiðum þeirra hafi verið komið nægilega vel til skila.