Innlent

„I´ll fucking kill you motherfuckers“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Vísir/Pjetur
Mál á hendur átján ára pilti fyrir líkamsárás auk líflátshótana í garð lögreglumanna var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Manninum er gefið að sök að hafa aðfaranótt miðvikudagsins 8. ágúst 2012, skammt frá Stöðinni við Suðurfell 4, ráðist með ofbeldi á mann, tveimur árum eldri, sem þá var á átjánda ári. Sló hann manninn nokkrum hnefahöggum í höfuðið svo hann féll í götuna, því næst sparkaði hann ítrekað í höfuð hans þar sem hann lá í götunni. Afleiðingarnar urðu þær að maðurinn hlaut 10 sm langt fleiður hægra megin við nef, yfirborðsáverka á hársverði, eymsli yfir neðanverðum rifjaboga beggja vegna og eymsli og hrufl yfir vinstri úlnlið eins og kemur fram í ákæru.

Maðurinn játaði sök í ofangreindum atriðum. Hann neitaði hins vegar sök í þeim ákæruliðum sem snúa að því er gerðist eftir að lögreglu bar að garði. Þá á maðurinn að hafa ráðist á lögreglumann og kýlt hann tvisvar í andlitið. Hlaut lögreglumaðurinn eymsli yfir neðanverðum rifjaboga beggja vegna og eymsli og hrufl yfir vinstri úlnlið.

Maðurinn hrækti þvínæst á lögreglumann, hafnaði hrákan á buxum lögreglumannsins, og í kjölfarið hótaði hann lögreglumönnunum lífláti með því að segja við þá ítrekað „I´ll fucking kill you motherfuckers“ að því er segir í ákærunni.

Teljast brot þessi varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×