Innlent

Bannað að birta mynd af Bubba með sígó á gafli Borgó

Jakob Bjarnar skrifar
Fræg mynd af Bubba með sígarettu í munnvikinu þykir með öllu ótæk í dag.
Fræg mynd af Bubba með sígarettu í munnvikinu þykir með öllu ótæk í dag.

„Að gefnu tilefni,“ segir Bubbi á Facebooksíðu sinni, og gefur til kynna með táknkarli að honum sé ekki skemmt. „Er samkvæmt lögum bannað að auglýsa tóbak með mynd af mér með sígarettu á gafli Borgarleikhúss.“

Bubbi segir að slíkt skilgreinist sem auglýsing en eins og fram hefur komið hefur markaðsdeild Borgarleikhússins breytt frægri mynd af Bubba svo auglýsa megi söngleik hússins sem byggir á lífi hans. En þar er kóngurinn vígalegur með sígarettu í munnvikinu. Fram hefur komið að þetta sé vegna þess að Facebook taki það ekki í mál að slík mynd sé notuð í auglýsingar sem birtar eru á samfélagsmiðlinum.

Markaðsdeild Borgarleikhússins fjarlægði sígarettuna úr munnviki kóngsins með hjálp photoshop-forritsins.

„Facebook virðist halda að við séum einhver búlla á Íslandi sem er að auglýsa kynlíf og sígarettur og hafa engan tíma fyrir slíkan ólifnað,“ sagði Pétur Rúnar Heimisson, markaðsstjóri Borgarleikhússins í samtali við Fréttablaðið. Leikhúsið hefur lent í því að vera bannað að auglýsa leiksýningar og fékk viðvörun um að síða þeirra væri komin á svartan lista.

Viðbrögð við þessari tilkynningu Bubba er afdráttarlaus og á einn veg. Fólk furðar sig á þessu ofboði og telur að um sé að ræða sögufölsun á forsendum gengdarlausrar forræðishyggju. Þannig segir til dæmis formaður Viðreisnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir við það tækifæri: „Meira ruglið“.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×