Fótbolti

„Hvernig gat svona leikmaður verið í Haukum?“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hjörvar Hafliðason undraði sig á því að ekkert lið hafi horft til Alexanders fyrr en HK gerði það í fyrra.
Hjörvar Hafliðason undraði sig á því að ekkert lið hafi horft til Alexanders fyrr en HK gerði það í fyrra. vísir/s2s

Það var til umræðu í Sportinu í kvöld sem var á dagskrá Stöðvar 2 Sports í gær hvaða leikmenn gætu slegið í gegn í Pepsi Max-deild karla í sumar. Hjörvar Hafliðason nefndi þar á nafn Alexander Freyr Sindrason sem og nokkra aðra.

Alexander gekk í raðir HK um mitt tímabil í fyrra en hann hafði leikið allan sinn ferli með uppeldisfélaginu Haukum áður en hann skipti yfir í Kórinn í fyrra.

„Svo tók ég einn leikmann til að ljúka mínum lista. Ég tók Alexander Sindrason leikmann HK sem sýnir okkur það að það eru góðir leikmenn í neðri deildunum,“ sagði Hjörvar og hélt áfram.

„Hann var í vonlausu Hauka-liði í fyrra og dettur inn fyrir ótrúlega tilviljun í HK. Hann er 1,94, súperfit og fínn á boltann. Hvernig gat svona leikmaður verið í Haukum í fyrra? Ég vona að hann bakki þetta upp í sumar sem ég er að segja núna.“

„Ef þið mynduð mæta honum þá mundirðu hugsa: Heyrðu, þetta er alvöru hafsent. Risa stór, sterkur og leikmaður sem ég geri vonir til að verði góður,“ sagði Hjörvar.

Klippa: Sportið í kvöld - Hjörvar um Nökkva, Alexander og Pétur

Sportið í kvöld er á dagskrá Stöðvar 2 Sports á þriðjudags-, miðvikudags- og fimmtudagskvöldum klukkan 20.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×