Innlent

Lögreglumaðurinn sem fann ekki kannabisvökvann neitaði sök

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Málið var þingfest í Héraðsdómi Suðurlands í morgun.
Málið var þingfest í Héraðsdómi Suðurlands í morgun. Vísir/vilhelm
Lögreglumaður, sem ákærður er fyrir að hafa ekki lagt hald á kannabisefni við húsleit í Hveragerði, neitaði sök við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Suðurlands í morgun.

Verjandi mannsins bað jafnframt um þriggja vikna frest til að skila greinargerð. Hvorki lögreglumaðurinn né verjandi vildu ræða við fréttastofu þegar óskað var eftir því í morgun.

Maðurinn, sem starfar sem lögreglumaður hjá embætti lögreglustjórans á Suðurlandi, var ákærður fyrir brot í opinberu starfi með því að hafa látið hjá líða að leggja hald á kannabisblandaðan vökva við húsleit í Hveragerði í maí síðastliðnum.

Í ákæru segir að lögreglumaðurinn hafi ekki sinnt skyldum sínum, en vökvann var að finna í potti á eldavél. Þá hefði átt að framkvæma frekari leit að fíkniefnum í umræddu húsnæði og leggja hald á nærri tvö kíló af kannabisefnum og tvo lítra af kannabisblönduðum vökva.

Aðrir lögreglumenn fundu efnin daginn eftir fyrstu leitina, en lögreglumaðurinn er sagður með háttsemi sinni hafa gerst sekur um stórfellda vanrækslu eða hirðuleysi í störfum sínum.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.