Innlent

Sáttanefnd vegna Guðmundar- og Geirfinnsmála enn að störfum

Ari Brynjólfsson skrifar
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að sáttanefnd vegna eftirmála Guðmundar- og Geirfinnsmála sé enn að störfum og bindur hún vonir við að heildarsamkomulag náist við þá fimm sem voru sýknaðir í Hæstarétti sem og afkomendur þeirra. Þetta kom fram í svari forsætisráðherra við fyrirspurn Helgu Völu Helgadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar.

Nefndin er undir forystu Kristrúnar Heimisdóttur og var skipuð af forsætisráðherra í kjölfar sýknudóms Hæstaréttar í september í fyrra.

Líkt og fram kom í síðustu viku eru aðstandendur Tryggva Rúnars Leifssonar heitins ósáttir við störf nefndarinnar. Erla Bolladóttir, sem fékk ekki endurupptöku á málinu, hefur einnig gagnrýnt seinagang við störf nefndarinnar.

Katrín sagði varðandi Erlu að hún hefði að sjálfsögðu viljað að málið gengi miklu hraðar fyrir sig. Ítrekaði Katrín að hún vonaði að málið væri einstakt og mætti ekki endurtaka sig.

Helga Vala segir svör forsætisráðherra skrítin. „Það virðist sem upplifun forsætisráðherra af störfum sáttanefndarinnar sé gjörólík þeirra sem hafa átt í samskiptum við hana,“ segir Helga Vala. Hún segir óhjákvæmilegt að ráðast í rannsókn á málinu. „Við munum leggja aftur fram þingsályktunartillögu um það. Við verðum að hætta að vera meðvirk með einstaklingum sem stóðu að þessari rannsókn, þetta snýst ekkert um persónurnar þar, það eru liðin 45 ár og við verðum að klára þetta mál.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×