Fjórir menn eru í haldi lögreglu grunaðir um þjófnað á flugeldum af Hjálparsveit skáta í Kópavogi. Flugeldarnir, sem metnir voru á tvær milljónir króna, fundust í gærkvöldi og hefur hjálparsveitin því endurheimt það sem stolið var.
Hjálparsveitin greindi sjálf frá málinu á Facebook-síðu sinni í gær og sagði að brotist hefði verið inn í húsnæði sveitarinnar og flugeldunum, stórum tertum, stolið. Þá væri tjónið ekki síður tilfinningalegt fyrir meðlimi sveitarinnar.
Gunnar Hilmarsson aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir í samtali við Vísi að fjórir menn hafi verið handteknir í tengslum við málið í gær. Teknar verði skýrslur af þeim í dag.
Þá hafi verið ráðist í húsleitir í gær og flugeldarnir að endingu fundist í vistarverum mannanna í vesturbæ Kópavogs. Þeir hafa komið áður við sögu lögreglu. Þá fundust fleiri munir við leitina sem taldir eru tengjast öðrum innbrotum.
Gunnar segir að enn eigi eftir að koma í ljós hvort eitthvað vanti upp á þýfið en eins og áður segir var um umtalsvert magn að ræða og söluverðið metið á um tvær milljónir króna. Málið er í rannsókn.
„En við erum bara mjög ánægð með að þetta sé komið í hús,“ segir Gunnar.
Flugeldarnir fundnir og fjórir menn í haldi

Tengdar fréttir

Flugeldum fyrir um tvær milljónir stolið af skátum í Kópavogi
Brotist var inn í húsnæði Hjálparsveitar skáta í Kópavogi á dögunum og talsverðu magni flugelda stolið.