Innlent

Kvenfélagasamband Íslands fær styrk frá ríkisstjórninni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kvenfélagasamband Íslands hefur gefið út Húsfreyjuna frá árinu 1949. Blaðið kemur út fjórum sinnum á ári.
Kvenfélagasamband Íslands hefur gefið út Húsfreyjuna frá árinu 1949. Blaðið kemur út fjórum sinnum á ári. Kvenfélagasamband Íslands

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að veita tvær milljónir af sameiginlegu ráðstöfunarfé sínu til Kvenfélagasambands Íslands í tilefni af 90 ára afmæli þess árið 2020.

Á afmælisárinu hyggst Kvenfélagasambandið í samstarfi við kvennadeildir Landsspítalans standa að söfnun fyrir tækjum og hugbúnaði til að tengja rafræn ómtæki við tölvuskjái. Tæknin mun auka öryggi í greiningum á sviði fæðingar- og kvensjúkdómalækninga og fækka tilfellum þar sem senda þarf konur á milli landshluta vegna ýmissa óvissuþátta.

Kvenfélagasambandið er fjölmennasta kvennahreyfingin á Íslandi sem starfar á landsvísu. Innan sambandsins starfa 17 héraðssambönd, 154 kvenfélög og eru félagar um 5000 talsins.

Á Kvennaheimilinu Hallveigarstöðum rekur Kvenfélagasambandið þjónustuskrifstofu sem heldur úti heimsíðum, gefur út tímaritið Húsfreyjuna og veitir upplýsingar, ráðgjöf og fræðslu til kvenfélaganna og héraðssambanda þeirra. Sambandið stendur árlega að ýmsum viðburðum og tekur þátt í norrænu og evrópsku samstarfi kvenfélaga.

Rekstur Kvenfélagasambandsins er að mestu fjármagnaður með árgjaldi félagskvenna og verkefnastyrkjum frá opinberum aðilum að því er segir á vef stjórnarráðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×