Innlent

Rúm­lega þriðjungur lands­manna gæðir sér á skötu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þessi skata er borin fram á Ölveri í Laugardalnum í dag í heljarinnar skötuveislu.
Þessi skata er borin fram á Ölveri í Laugardalnum í dag í heljarinnar skötuveislu. vísir/birgir

Rúmlega þriðjungur landsmanna ætlar að gæða sér á skötu í dag, á Þorláksmessu, ef marka má niðurstöður könnunar MMR.

Á vef MMR segir að hlutfall þeirra sem halda í skötuhefðina hafi haldist um þetta bil frá því að mælingar fyrirtækisins á jólahefðum landsmanna hófust.

„Alls voru 37% sem sögðust ætla að borða skötu á Þorláksmessudag þetta árið, 2 prósentustigum fleiri en í fyrra.

Skatan reyndist líkt og fyrri ár vinsælli hjá körlum heldur en konum en 44% karla sögðust ætla að gæða sér á hinu kæsta ljúfmeti á Þorláksmessu þetta árið, samanborið við 30% kvenna.

Þá höfðaði skatan líkt og áður einnig meira til eldri kynslóða heldur en þeirra yngri en 58% svarenda 68 ára og eldri sögðust ætla að fara í skötu í ár, samanborið við einungis 21% þeirra 18-29 ára.

Þá virðist sem að skötuhefðin haldi áfram að vera ríkari á landsbyggðinni heldur en á höfuðborgarsvæðinu en 46% svarenda af landsbyggðinni kváðust ætla að borða skötu á Þorláksmessu, samanborið við 32% þeirra af höfuðborgarsvæðinu,“ segir á vef MMR um könnunina þar sem lesa má nánar um niðurstöðurnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×