Erlent

YouTube-stjarna fangelsuð fyrir að hafa móðgað konung Marokkó

Andri Eysteinsson skrifar
Sekkaki var dæmdur í borginni Settat.
Sekkaki var dæmdur í borginni Settat. Skjáskot/YouTube

Marokkóska YouTube-stjarnan Mohamed Sekkaki hefur verið dæmdur í fjögurra ára fangelsi auk fjársektar fyrir að hafa móðgað Marokkókonung, Múhameð VI. BBC greinir frá.

Sekkaki var handtekinn fyrr í desember eftir að hafa gagnrýnt ræður konungs og kallað samlanda sína asna. Sekkaki sem þekktur er á samfélagsmiðlinum YouTube undir nafninu Moul Kaskita er ekki sá eini sem handtekinn er í Marokkó vegna ummæla á internetinu en blaðamaðurinn Omar Radi var einnig handtekinn fyrir skömmu sakaður um að hafa birt á Twitter-síðu sinni móðganir gegn dómara í Marokkó.

Baráttuhópar fyrir mannréttindum hafa lýst yfir áhyggjum sínum yfir málum sem þessum í Marokkó. Í nóvember var rapparinn Gnawi dæmdur í eins árs fangelsi eftir deilur við lögregluna. Aðdáendur Gnawi telja þó að hann hafi verið handtekinn og fangelsaður vegna texta hans þar sem hann gagnrýndi konungsveldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×