Innlent

Jólunum komið í skjól fyrir veðurofsanum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Jólakötturinn reyrður fastur við steypuklumpa. Hann ætti ekki að verða Kára að bráð í dag.
Jólakötturinn reyrður fastur við steypuklumpa. Hann ætti ekki að verða Kára að bráð í dag. Vísir/vilhelm

Starfsmenn Reykjavíkurborgar hafa unnið að því í morgun að tryggja stórar jólaskreytingar í miðbænum áður en mikið hvassviðri skellur á síðdegis í dag. Gert er ráð fyrir að veður verði verst á milli 18 og 21.

„Það er búið að tryggja jólaköttinn svo hann fari ekki í veðurhaminn, þannig að Kári taki hann ekki,“ segir Bjarni Brynjólfsson, upplýsingafulltrúi Reykjavíkurborgar í samtali við Vísi.

„Síðan er búið að leggja Óslóartréð niður á völlinn og fergja það, svo það fari hvergi. Þá er búið að taka niður allar stóru jólabjöllurnar. Þverböndin eru látin halda sér en bjöllurnar teknar af svo þær valdi ekki hættu.“

Oslóartréð lá á Austurvelli þegar ljósmyndara Vísis bar að garði í morgun.Vísir/vilhelm

Bjarni bendir á að reiknað sé með að veður á höfuðborgarsvæðinu verði einkar slæmt í Miðbænum og Vesturbænum nú síðdegis. Hann sé ekki meðvitaður um sambærilegar veðurráðstafanir í öðrum hverfum borgarinnar; jólakötturinn, Oslóartréð og jólabjöllurnar séu þeir munir sem helst kunni að stafa vá af í veðurofsa.

„Síðan verður bara teymi á hverfastöðinni á vakt fram eftir degi og verður til taks ef eitthvað kemur upp á,“ segir Bjarni. „Við vonumst til að fólk verði ekki mikið á ferðinni eftir klukkan 15.“

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur sagði í morgun að skaplegt veður yrði á höfuðborgarsvæðinu fram yfir hádegi en eftir klukkan eitt byrji að hvessa. Veðrið nái svo hámarki á suðvesturhorninu snemma í kvöld, milli klukkan 18 og 21. Hvassast verður við Kollafjörð, í Mosfellsbæ og á Álftanesi og Seltjarnarnesi.

Jólabjöllunum á Skólavörðustíg hefur verið komið í öruggt skjól.Vísir/vilhelm

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×