Erlent

Munu hefna fyrir þvinganir frá Bandaríkjunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands.
Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands. EPA/VALENTIN FLAURAUD

Yfirvöld Tyrklands segjast ætla að hefna sín ef Bandaríkjaþing ákveður að beita Tyrki viðskiptaþvingunum vegna kaupa þeirra á loftvarnarkerfi frá Rússlandi. Meðal annars komi til greina að íhuga að loka herstöðvum Bandaríkjanna í Tyrklandi. Bæði ríkin eru í Atlantshafsbandalaginu og þar með bandamenn.

Bandarískir þingmenn munu í dag kjósa um þvinganir gegn Tyrkjum og þykir líklegt að þær verði samþykktar.

Mikil spenna hefur verið á milli Bandaríkjanna og Tyrklands að undanförnu og að miklu leyti vegna kaupa Tyrkja á S-400 loftvarnarkerfinu frá Rússlandi. Tyrkir hafa prófað kerfið á orrustuþotum sem þeir keyptu frá Bandaríkjunum. Yfirvöld bandaríkjanna hafa meinað Tyrkjum að kaupa F-35 orrustuþotur.

Innrás Tyrkja inn í Sýrland, sem beinist gegn sýrlenskum Kúrdum, bandamönnum Bandaríkjanna gegn Íslamska ríkinu, hefur einnig komið verulega niður á sambandi ríkjanna.

Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, gaf í skyn í morgun að til greina kæmi að reka Bandaríkjamenn frá herstöðvunum í Incirlik og Kurecik, þar sem Bandaríkin hafa verið með viðveru um árabil. Allt kæmi til greina verði viðskiptaþvinganir samþykktar.

Herstöðin í Incirlik hefur verið aðal flugstöð Bandaríkjanna í miðausturlöndum á undanförnum árum og sérstaklega varðandi baráttuna gegn íslamska ríkinu í Sýrlandi og Írak. Kurecik er í austurhluta Tyrklands og þykir einstaklega mikilvæg fyrir NATO.

Cavusoglu sagði einnig í morgun að Tyrkir hefðu keypt S-400 kerfið vegna þess að besta tilboðið hefði komið frá Rússlandi. Hann sagði að í stað F-35 gætu Tyrkir þar að auki keypt orrustuþotur frá Rússlandi. Í það minnsta þar til Tyrkir hefja framleiðslu á eigin orrustuþotum.

Samkvæmt Reuters gerður Tyrkir samkomulag við Breta árið 2017 sem felur í sér þróun orrustuþota fyrir Tyrklands. Fyrirtækin Kale Group og Rolls-Royce hafa unnið að þeirri þróun. Fyrr á árinu tilkynntu forsvarsmenn Rolls-Royce þó að þeir hefðu dregið úr aðkomu fyrirtækisins að verkefninu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.