Innlent

Rarik vonast til að svo til allir verði komnir með rafmagn í lok dags

Birgir Olgeirsson skrifar
Starfsmenn Rarik leggja allt kapp á að koma rafmagni til þeirra sem eru án hitaveitu vegna kulda.
Starfsmenn Rarik leggja allt kapp á að koma rafmagni til þeirra sem eru án hitaveitu vegna kulda. Rarik.is

Vonast er til að svo til allir þeir sem misstu rafmagnið í óveðrinu verði komnir með rafmagn í lok dags. Starfsmenn Rarik leggja allt kapp á að koma rafmagni til þeirra sem eru án hitaveitu vegna kulda.

360 heimili og fyrirtæki voru án rafmagns án Norðurlandi í gær eftir veðurofsann sem gekk yfir landið í vikunni. Rarik vonast til að lækka þá tölu verulega í dag. 

„Staðan er sú að við vonumst til að þessi tala lækki niður í 200 á næstu tímum. Við höfum unnið við viðgerðir í Öxnadal, Hörgárdal og Svarfaðardal. Við vonumst til að notendur þar fari að koma inn. Í lok dags vonumst við til að svo til allir okkar viðskiptavinir verði komnir með rafmagn með viðgerðum eða í gegnum varafl,“ segir Helga Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs og formaður neyðarstjórnar Rariks

Spáð er miklu frosti í dag, allt að sextán stigum inn til landsins, og því forgangsatriði að koma rafmagni á staði sem eru án hitaveitu. 

„Við munum leggja áherslu á að koma rafmagni á þá staði. Þetta er á Norðausturhorninu. Tjörnesi, Öxnadalnum, Hörgárdalnum og á Skaganum. Þar eru köld svæði og við munum vinna að því í dag.“

Á Tjörnesi þarf að gera við slit og staurabrot, verið er að spennusetja í Svarfaðardal eftir viðgerðir og í Skagafirði standa yfir viðgerðir á Glaumbæjarlínu. Varavélar eru keyrðar á Norðausturhorninu. Vonast er til að hægt sé að fasa einhverjar þeirra út í dag. 



„Bið erum með 80-90 manns að vinna í þessum verkefnum. Þetta er búið að vera gífurlegt álag á okkar starfsfólki frá því á þriðjudag. Við höldum áfram þar til allir eru komnir með rafmagn.“

Þó svo til allir verði komnir með rafmagn í lok dags er mikið verk fyrir höndum. 

„Viðgerðum verður ekki lokið og verðum við á fullu að því næstu daga.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×