Innlent

Rarik vonast til að svo til allir verði komnir með rafmagn í lok dags

Birgir Olgeirsson skrifar
Starfsmenn Rarik leggja allt kapp á að koma rafmagni til þeirra sem eru án hitaveitu vegna kulda.
Starfsmenn Rarik leggja allt kapp á að koma rafmagni til þeirra sem eru án hitaveitu vegna kulda. Rarik.is

Vonast er til að svo til allir þeir sem misstu rafmagnið í óveðrinu verði komnir með rafmagn í lok dags. Starfsmenn Rarik leggja allt kapp á að koma rafmagni til þeirra sem eru án hitaveitu vegna kulda.

360 heimili og fyrirtæki voru án rafmagns án Norðurlandi í gær eftir veðurofsann sem gekk yfir landið í vikunni. Rarik vonast til að lækka þá tölu verulega í dag. 

„Staðan er sú að við vonumst til að þessi tala lækki niður í 200 á næstu tímum. Við höfum unnið við viðgerðir í Öxnadal, Hörgárdal og Svarfaðardal. Við vonumst til að notendur þar fari að koma inn. Í lok dags vonumst við til að svo til allir okkar viðskiptavinir verði komnir með rafmagn með viðgerðum eða í gegnum varafl,“ segir Helga Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs og formaður neyðarstjórnar Rariks

Spáð er miklu frosti í dag, allt að sextán stigum inn til landsins, og því forgangsatriði að koma rafmagni á staði sem eru án hitaveitu. 

„Við munum leggja áherslu á að koma rafmagni á þá staði. Þetta er á Norðausturhorninu. Tjörnesi, Öxnadalnum, Hörgárdalnum og á Skaganum. Þar eru köld svæði og við munum vinna að því í dag.“

Á Tjörnesi þarf að gera við slit og staurabrot, verið er að spennusetja í Svarfaðardal eftir viðgerðir og í Skagafirði standa yfir viðgerðir á Glaumbæjarlínu. Varavélar eru keyrðar á Norðausturhorninu. Vonast er til að hægt sé að fasa einhverjar þeirra út í dag. 

„Bið erum með 80-90 manns að vinna í þessum verkefnum. Þetta er búið að vera gífurlegt álag á okkar starfsfólki frá því á þriðjudag. Við höldum áfram þar til allir eru komnir með rafmagn.“

Þó svo til allir verði komnir með rafmagn í lok dags er mikið verk fyrir höndum. 

„Viðgerðum verður ekki lokið og verðum við á fullu að því næstu daga.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.