Innlent

Jarðskjálfti á Reykjanesskaga í morgun fannst á Hellu

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Upptök skjálftanna hafa verið í kringum Fagradalsfjall á Reykjanesi.
Upptök skjálftanna hafa verið í kringum Fagradalsfjall á Reykjanesi. Loftmyndir

Snarpur jarðskjálfti, 3,5 að stærð, sem varð á Reykjanesi klukkan átta í morgun, fannst alla leið til Hellu. Hátt í sjötíu eftirskjálftar hafa mælst í morgun.

Hrina skjálfta hófst við Fagradalsfjall á Reykjanesi rétt fyrir átta í morgun. Stærsti skjálftinn 3,5 að stærð varð klukkan eina mínútu í átta en upptök hans voru 3,4 kílómetra suðaustur af Fagradalsfjalli.

„Við höfum verið að mæla síðan þá um sextíu skjálfta. Það hefur verið töluvert um eftirskjálftavirkni. Stærsti eftirskjálftinn var 2,5 af stærð, tvær mínútur yfir átta,“ segir Elísabet Pálmadóttir, jarðfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Sjá einnig: Skjálfti að stærð 3,5 mældist við Fagradalsfjall

Elísabet segir að á annan tug tilkynning hafi borist frá fólki sem fann fyrir skjálftanum.

„Við höfum fengið tilkynningar af Reykjanesskaganum og höfuðborgarsvæðinu en svo kom nú reyndar ein tilkynning frá Hellu. Það er mjög langt frá,“ segir Elísabet.

Jarðskjálftar eru mjög algengir á þessu svæði. „Á þessu ári hafa orðið um 220 skjálftar í fjallinu. Þetta er rosalega virkt jarðsvæði, það er eldvirkni þarna og jarðhiti og jarðskjálftavirkni, þannig það er ekki búin að vera óeðlilega mikil virkni á svæðinu," segir Elísabet Pálmadóttir, jarðfræðingur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.