Innlent

Ráðamenn hafi ákveðið að gera landeigendur að blórabögglum vegna mistaka yfirvalda

Birgir Olgeirsson skrifar

Formaður samtaka landeigenda segir af og frá að þeir hafi öryggi þjóðarinnar á samviskunni. Ráðamenn og stjórnendur orkufyrirtækja hafi ákveðið að gera landeigendur að blórabögglum vegna mistaka yfirvalda.

Stjórnendur orkufyrirtækja sögðust ekki geta farið í úrbætur á raforkukerfinu vegna andstöðu landeigenda. Undir þetta tók samgönguráðherra sem sagði að breyta þyrftu ferlunum.

Óskar Magnússon formaður Landssamtaka Landeigenda á Íslandi segir þetta ódýra afsökun.

„Það er ekkert upp á landeigendur sérstaklega að klaga. Síðan auðvitað þegar menn vita upp á sig sökina og hafa ekki staðið sig í stykkinu, þá þarf að finna einhvern blóraböggul.“

Því fari fjarri að landeigendur hafi öryggi þjóðarinnar á samviskunni.

„Það er víðar pottur brotinn en svo að landeigendur hafi staðið í vegi fyrir línulögnum endalaust. Það er ekki þannig sem málið er vaxið.“

Landeigendur hafa kallað eftir því að raflínur verði lagðar í jörð. Landsnet segir það þó ekki hægt nema í að litlu leyti vegna tæknilegra takmarkana. Óskar segir Landsnet þurfa að slaka á kröfum sínum.

„Kröfurnar um jarðstrengi sem Landsnet gerir eru svo miklar, af því að þeir ætla að geta flutt orku sem dugar til að standa fyrir stóriðju um land allt sem er algjör óþarfi. Það er hægt að leggja jarðstrengi í fleiri hundruð og þúsund kílómetra fyrir þá orku sem þörf er á um landið núna. Það þarf ekki að gera kröfur um þessa strengi sem þola þessa miklu spennu sem þeir eru að gera kröfur um. Og þá leysist þetta mál.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×