Innlent

„Hefðbundnara desemberveður“ á morgun

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Búast má við éljagangi víða á landinu á morgun.
Búast má við éljagangi víða á landinu á morgun. Vísir/vilhelm

Í dag má víða búast við rigningu sem verður að slyddu um vestanvert landið í kvöld þegar kólnar. Á morgun stefnir í éljagang víða um land, að undanskildu norðaustanverðu landinu, sem ætti að haldast þurrt.

„Því má búast við hefðbundnara desemberveðri á morgun en er búið að vera síðustu daga þar sem mildar suðlægar áttir hafa ráðið ríkjum,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Þá hefur gul viðvörun vegna vinds verið í gildi norðaustanlands, einkum nærri Tröllaskaga, síðan í gær. Sú viðvörun rennur út nú klukkan níu.

Á fimmtudag og föstudag er svo útlit fyrir norðlæga átt og vetrarveður á norðanverðu landinu með köldu veðri.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:
Suðlæg átt 5-10 m/s, en vestan strekkingur með S-ströndinni. Éljagangur víða, en bjart með köflum NA-til. Kólnandi, frost 0 til 7 stig seinni partinn.

Á fimmtudag og föstudag:
Snýst í norðlæga átt með snjókomu eða éljum norðanlands, en yfirleitt þurrt og bjart syðra. Frost 1 til 10 stig.

Á laugardag:
Vaxandi austlæg átt með snjókomu í fyrstu, en síðan slyddu eða jafnvel rigningu. Lengst af þurrt NA-lands. Frost 0 til 5 stig, en frostlaust með suðurströndinni.

Á sunnudag:
Austanátt með snjókomu eða rigningu, en þurrt að kalla um landið NA-vert. Hiti 0 til 5 stig.

Á mánudag:
Útlit fyrir suðlæga átt og úrkomu með köflum. Hiti breytist lítið.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.