Innlent

Verkfalli á prentmiðlum lokið

Samúel Karl Ólason skrifar
Þetta var fyrsta vinnustöðvunin á prentmiðlum en fyrri þrjár vinnustöðvanir tóku til netmiðla, ljósmyndara og tökumanna.
Þetta var fyrsta vinnustöðvunin á prentmiðlum en fyrri þrjár vinnustöðvanir tóku til netmiðla, ljósmyndara og tökumanna. Vísir/Vilhelm

Tólf tíma verkfalli blaðamanna á prentmiðlum, auk ljósmyndara og tökumanna sem eru félagsmenn í Blaðamannafélagi Íslands og starfa hjá Fréttablaðinu, Morgunblaðinu, Sýn og Rúv, lauk klukkan tíu í kvöld. Þetta var fyrsta vinnustöðvunin á prentmiðlum en fyrri þrjár vinnustöðvanir tóku til netmiðla, ljósmyndara og tökumanna.

Blaðamenn felldu kjarasamning við SA í síðustu viku en skrifað var undir hann í kjölfar þess að boðuðum verkfallsaðgerðum var frestað um viku.

Sú ákvörðun samninganefndar félagsins var afar umdeild enda hafði hún í för með sér að verkfall á prentmiðlum, sem átti að vera síðastliðinn fimmtudag, daginn fyrir svokallaðan Black Friday, frestaðist til dagsins í dag.
Eftir að kjarasamningurinn var felldur í atkvæðagreiðslu hafa samninganefndir BÍ og SA átt fundi hjá ríkissáttasemjara en án árangurs. Síðast var fundað á þriðjudag og hefur nýr fundur ekki verið boðaður í deilunni.

Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands. Vísir/Vilhelm

Hjálmar Jónsson, formaður BÍ, segist ekki hafa heyrt af neinum vandræðum með verkfallið í dag. Hann viti ekki öðruvísi en allt hafi farið eftir áætlun.

„Við tökum stöðuna á þessu á morgun, þegar við sjáum hvernig blöðin líta út,“ segir Hjálmar.

Jón Þórisson, ritstjóri Fréttablaðsins, sagði í dag að til stóð að gefa út blað á morgun en það yrði með breyttu sniði. Verkfallið muni setja mark sitt á blaðið og það muni ekki fara fram hjá lesendum.

Sjá einnig: Verkfallið muni setja mark sitt á blað morgundagsins

Gengið hefur á ýmsu í verkfallsaðgerðum blaðamanna en Blaðamannafélagið hefur kært Árvakur sem gefur út Morgunblaðið til félagsdóms fyrir verkfallsbrot. Engar athugasemdir hafa aftur á móti verið gerðar við framkvæmd Fréttablaðsins.

Blaðamenn á Vísi eru félagsmenn í Blaðamannafélagi Íslands.


Tengdar fréttir

Fundi SA og blaðamanna slitið

Fundi samninganefnda Samtaka atvinnulífsins og Blaðamannafélags Íslands var slitið á fimmta tímanum, án niðurstöðu.

Hitafundur í húsakynnum Blaðamannafélags Íslands

Töluverður hiti er meðal félagsmanna í Blaðamannafélagi Íslands sem komu saman í húsakynnum félagsins við Síðumúla klukkan tólf í dag. Tilefnið var að ráða ráðum sínum í ljósi stöðunnar sem upp er komin.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.