Innlent

Meint verk­falls­brot Ár­vakurs tekin fyrir í Fé­lags­dómi á þriðju­dag

Sylvía Hall skrifar
Blaðamannafélagið hefur stefnt Samtökum atvinnulífsins vegna meintra verkfallsbrota Árvakurs.
Blaðamannafélagið hefur stefnt Samtökum atvinnulífsins vegna meintra verkfallsbrota Árvakurs. Vísir/Vilhelm
Blaðamannafélag Íslands hefur stefnt Samtökum atvinnulífsins vegna meintra verkfallsbrota Árvakurs í vinnustöðvun vefblaðamanna sem fór fram síðastliðinn föstudag frá klukkan 10 til 14. Vinnustöðvunin var sú fyrsta í verkfallsaðgerðum Blaðamannafélagsins. Málið verður þingfest í Félagsdómi næstkomandi þriðjudag. Hin meintu brot snúast að fréttaskrifum blaðamanna Árvakurs á vef mbl.is á meðan vinnustöðvun stóð yfir. Á meðal þeirra sem grunuð eru um verkfallsbrot eru þrír félagsmenn í Blaðamannafélagi Íslands en níu blaðamenn birtu fréttir á vefnum á meðan vinnustöðvun stóð yfir. Skrif blaðamannanna vöktu mikla athygli og sendu átján vefblaðamenn mbl.is frá sér yfirlýsingu þar sem þeir lýstu yfir vonbrigðum með ritstjóra sinn og samstarfsmenn. Á meðal þeirra sem skrifuðu undir voru fréttastjóri mbl.is og yfirmaður íþróttadeildar Morgunblaðsins. Sjá einnig: Blaðamenn Mbl.is svekktir með framferði ritstjóra, framkvæmdastjóra og félaga„Um leið og blaðamenn á mbl.is lögðu niður störf í morgun tóku nokkrir blaðamenn á Morgunblaðinu, sem að öllu jöfnu skrifa ekki fréttir á mbl.is, til við að skrifa fréttir á mbl.is,“ sagði í yfirlýsingu starfsmannanna. Alls eru 22 fréttir tilgreindar í stefnu Blaðamannafélagsins sem birtust á milli 10 og 14 síðastliðinn föstudag. Fer Blaðamannafélagið fram á það að dómurinn viðurkenni að Árvakur hafi með birtingu fréttanna brotið gegn ákvæði laga um vinnudeilur þar sem segir að óheimilt sé að stuðla að því að afstýra vinnustöðvun sem hefur verið löglega hafin með aðstoð einstakra meðlima félaga sem standa að vinnustöðvuninni. Þá krefst Blaðamannafélag Íslands að Árvakur verði dæmt til sektargreiðslu sem og greiðslu málskotnaðar.

Tengd skjöl


Tengdar fréttir

Formaður Blaðamannafélags Íslands segist ekki bjartsýnn

Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, segir að fundur félagsins hjá Ríkissáttasemjara í dag hafi gengið ágætlega. Fundurinn hafi verið um klukkutíma langur en hann hafi ekki skilað niðurstöðu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.