Innlent

Felur stjórn RÚV að stofna dótturfélag fyrir áramót

Elín Margrét Böðvarsdóttir og Tryggvi Páll Tryggvason skrifa
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra. Vísir/vilhelm
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningamálaráðherra, hefur falið stjórn RÚV að hrinda í framkvæmd stofnun dótturfélags fyrir aðra starfsemi RÚV en fjölmiðlun í almannaþágu. Stjórnin hefur til áramóta til þess að stofna dótturfélag eða félög utan um samkeppnisrekstur RÚV.

Meðal niðurstaða í heildstæðri úttekt Ríkisendurskoðunar á RÚV var það að RÚV hafi brotið lög með því að hafa ekki stofnað dótturfélag um aðra starfsemi en fjölmiðlun í almmannaþágu. Má þar nefna auglýsingasölu, kostun og útleigu á myndveri RÚV, svo dæmi séu tekin.

Í úttektinni kemur einnig fram að miðað við samtöl starfsmanna Ríkisendurskoðunar við fulltrúa RÚV og Mennta- og menningarmálaráðuneytis hafi stofnum dótturfélags eða félaga verið talin óþörf, aðskilnaður í bókhaldi væri nægjanlegur. Benti Ríkisendurskoðandi á móti að ekki væri valkvætt að fara að lögum, það væri skylda RÚV að fara eftir þeim og stofna dótturfélag eða félög utan um annan rekstur en fjölmiðlun í almannaþágu.

Og það er það sem mun gerast ef marka má orð Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, í Kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld þar sem hún var spurð að því hvernig hún myndi bregðast við úttektinni.

„Ég hef alltaf verið á þeirri skoðun að það eigi að setja dótturfélagið á laggirnar og hér kemur staðfesting á því. Ég fagna þessari niðurstöðu og ég hef þegar verið í sambandi við stjórn RÚV sem mun núna hrinda þessu í framkvæmd fyrir áramót,“ sagði Lilja.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×