Innlent

Felur stjórn RÚV að stofna dótturfélag fyrir áramót

Elín Margrét Böðvarsdóttir og Tryggvi Páll Tryggvason skrifa
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra. Vísir/vilhelm

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningamálaráðherra, hefur falið stjórn RÚV að hrinda í framkvæmd stofnun dótturfélags fyrir aðra starfsemi RÚV en fjölmiðlun í almannaþágu. Stjórnin hefur til áramóta til þess að stofna dótturfélag eða félög utan um samkeppnisrekstur RÚV.

Meðal niðurstaða í heildstæðri úttekt Ríkisendurskoðunar á RÚV var það að RÚV hafi brotið lög með því að hafa ekki stofnað dótturfélag um aðra starfsemi en fjölmiðlun í almmannaþágu. Má þar nefna auglýsingasölu, kostun og útleigu á myndveri RÚV, svo dæmi séu tekin.

Í úttektinni kemur einnig fram að miðað við samtöl starfsmanna Ríkisendurskoðunar við fulltrúa RÚV og Mennta- og menningarmálaráðuneytis hafi stofnum dótturfélags eða félaga verið talin óþörf, aðskilnaður í bókhaldi væri nægjanlegur. Benti Ríkisendurskoðandi á móti að ekki væri valkvætt að fara að lögum, það væri skylda RÚV að fara eftir þeim og stofna dótturfélag eða félög utan um annan rekstur en fjölmiðlun í almannaþágu.

Og það er það sem mun gerast ef marka má orð Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, í Kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld þar sem hún var spurð að því hvernig hún myndi bregðast við úttektinni.

„Ég hef alltaf verið á þeirri skoðun að það eigi að setja dótturfélagið á laggirnar og hér kemur staðfesting á því. Ég fagna þessari niðurstöðu og ég hef þegar verið í sambandi við stjórn RÚV sem mun núna hrinda þessu í framkvæmd fyrir áramót,“ sagði Lilja.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.