Lífið

Knattspyrnukonur safna fyrir fjölskyldu Olgu Steinunnar

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Olga Steinunn lét eftir sig eiginmann og þrjú börn.
Olga Steinunn lét eftir sig eiginmann og þrjú börn. Vísir
Guðlaug Jónsdóttir og Ásta Árnadóttir, fyrrum landsliðskonur í knattspyrnu, hafa sett af stað söfnun fyrir eiginmann og börn Olgu Steinunnar Weywadt Stefánsdóttur sem lést í sumar eftir erfiða baráttu við krabbamein. Guðlaug og Ásta hafa stofnað styrktarreikning og ætla einnig að halda styrktarmót fyrir allar knattspyrnukonur 20 ára og eldri í Egilshöll 28. desember.

„Olga var fædd árið 1975 og lék hún upp yngri flokkana með Val. Olga lék með nokkrum liðum í meistaraflokki hér á landi; Fram, Fjölni, KR, ÍBV, FH og HSH, á árunum 1993-2003, alls 71 leik og skoraði 25 mörk. Olga bjó í Svíþjóð með fjölskyldu sinni en árið 2013 greinist hún með brjóstakrabbamein og flytur til Íslands eftir það,“ segja þær um söfnunina.

Olga lést í júlí á þessu ári og lét eftir sig eiginmann og þrjú börn. Olga og eiginmaður hennar, Gísli Álfgeirsson, ræddu opinskátt um meinið og baráttuna í fjölmiðlum. Í stað þess að fara í uppbyggingu á brjóstinu ákvað Olga að fá sér húðflúr yfir örið. Flúrið sýndi hún svo á forsíðu Vikunnar sem vakti mikla athygli.

Börnin þeirra Olgu og Gísla voru fimm, sjö og fimmtán ára þegar Olga greindist fyrst. Olga og Gísli sögðu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í vor að heilbrigðiskerfið þurfi að halda betur utan um fjölskyldur veikra einstaklinga og búa til betri og upplýstari umgjörð fyrir börn í sorgarferli. 

„Þið megið allar auglýsa þetta og láta vita, það er öllum á landinu velkomið að styrkja og taka þátt í þessari söfnun okkar. Við erum stoltar að tilkynna ykkur það að við, og þið, ætlið að styrkja fjölskyldu Olgu Steinunnar í ár. Nú er þetta í ykkar höndum, að taka þátt og leggja inn á reikning; 0111-26-702209, kt. 2209715979,“ skrifuðu Guðlaug og Ásta þegar þær auglýstu mótið.




Tengdar fréttir

„Krabbameinið er fokking fokk“

„Ég er með eitt húðflúr á löppinni sem er pínulítið mitt einkennismerki, og þar stendur Fuck Cancer,“ segir Olga Steinunn Stefánsdóttir sem missti annað brjóstið eftir að hafa fengið brjóstakrabbamein.

Olga Steinunn er látin

Olga Steinunn Weywadt Stefánsdóttir er látin eftir baráttu sem hún hefur háð við brjóstakrabbamein eftir greiningu árið 2013.

Betri umgjörð þarf fyrir börn veikra foreldra

Kona með ólæknandi krabbamein segir að þegar maður veit að dauðinn er á næsta leyti sé mikilvægt að vita að börnin manns séu í öruggum höndum. Heilbrigðiskerfið þurfi að halda betur utan um fjölskyldur veikra einstaklinga og búa til betri og upplýstari umgjörð fyrir börn í sorgarferli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×