Innlent

Blaðamannafélagið undirritar kjarasamning

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands.
Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands. visir/vilhelm
Blaðamannafélag Íslands skrifaði nú síðdegis undir kjarasamning við Samtök atvinnulífsins, samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkissáttasemjara.

Samningurinn var undirritaður að loknum fundi í húsakynnum ríkissáttasemjara klukkan fimm og til stendur að bera hann undir blaðamenn í næstu viku. Samninginn sem samninganefnd BÍ hafði hafnað fyrr í haust. 

Sjá einnig: Hitafundur í húsakynnum Blaðamannafélags Íslands

Hjálmar Jónsson formaður Blaðamannafélagsins sagði í samtali við fréttastofu í morgun að samninganefndin hefði staðið frammi fyrir tveimur vondum kostum. Að stefna deilunni í mjög harðan hnút í desember, hjá frjálsum fjölmiðlum sem standi veikum fótum, eða gangast undir ok lífskjarasamningsins, eins og Hjálmar komst að orði. Það hafi verið niðurstaðan.

Þá hefur einnig verið haft eftir honum í fréttum í dag að hann gæti ekki með góðri samvisku mælt með samningnum sem nú hefur verið undirritaður.

Ekki náðist í Hjálmar við vinnslu þessarar fréttar. Halldór Benjamín Þorbergsson framvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir í samtali við Vísi að hann muni ekkert tjá sig um samninginn eða undirritun hans í dag.

Blaðamenn Vísis eru langflestir í Blaðamannafélagi Íslands.


Tengdar fréttir

Verkfallsaðgerð vefblaðamanna í dag frestað

Ákveðið hefur verið að fresta fyrirhugaðri verkfallsaðgerð vefblaðamanna sem fyrirhuguð var í dag. Klukkan tíu stóð til að fréttamenn, ljósmyndarar og myndatökumenn á vefmiðlum legðu niður störf í tólf tíma.

Hitafundur í húsakynnum Blaðamannafélags Íslands

Töluverður hiti er meðal félagsmanna í Blaðamannafélagi Íslands sem komu saman í húsakynnum félagsins við Síðumúla klukkan tólf í dag. Tilefnið var að ráða ráðum sínum í ljósi stöðunnar sem upp er komin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×