Vegna bilunarinnar var ekki hægt að senda rafræna lyfseðla eða afgreiða lyf í apótekum. Einnig kom þetta í veg fyrir öll rafræn samskipti milli sjúklinga og þeirra aðila sem veita heilbrigðisþjónustu.
Sjá einnig: Landsmenn geta ekki leyst út lyfin sín
Fram kemur í tilkynningu frá Embætti landlæknis að engar rafrænar upplýsingar hafi glatast á meðan kerfin lágu niðri. Við taki greining á orsök vandans í því skyni að fyrirbyggja að slíkt geti komið fyrir aftur. Biðst embættið um leið afsökunar á þeim óþægindum sem bilunin olli í dag.

Fram kemur í tilkynningunni að þjónustuaðilarnir Advania og Origo hýsi og þjónusti kerfið sem sé í eigu landlæknisembættisins. Umrædd fyrirtæki muni nú kappkosta við að komast að rót vandans.