Innlent

Stuttur tími til stefnu fyrir fjölmiðlafrumvarp Lilju

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK
Fjölmiðlafrumvarp Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra hefur verið afgreitt úr ríkisstjórn og var kynnt þingflokkum stjórnarflokkanna í gær. Frumvarpinu hefur ekki verið dreift á Alþingi en frestur til að leggja fram mál á haustþingi rennur út á laugardaginn. Því er ljóst að stuttur tími er til stefnu ætli Lilja sér að ná frumvarpinu í gegn fyrir jólahlé. Frumvarpið er því sem stendur statt hjá þingflokkum stjórnarflokkanna samkvæmt upplýsingum fréttastofu.

Rúv greindi frá því í gærkvöld að styrkir til einkarekinna fjölmiðla samkvæmt nýju fjölmiðlafrumvarpi verði samanlagt fjórðungi lægri en gert var ráð fyrir í fyrra frumvarpi sem var kynnt í byrjun árs. Þannig sé í nýju frumvarpi gert ráð fyrir að styrkir í formi endurgreiðslu af ákveðnum hluta rekstrarkostnaðar fjölmiðla verði 20% en ekki 25% eins og lagt var upp með í fyrra frumvarpi.

Þá lækki hlutfall sérstaks stuðnings ríkisins vegna launakostnaðar úr 5,15% samkvæmt fyrra frumvarpi niður í 3% samkvæmt frétt Rúv. Áfram sé þó gert ráð fyrir að hámarksfjárhæð endurgreiðslna verði 50 milljónir á ári.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er þó ennþá gert ráð fyrir sömu fjárheimildum vegna stuðnings við einkarekna fjölmiðla, líkt og kemur fram í fjárlögum næsta árs sem samþykkt voru á Alþingi í gær. Samkvæmt frétt Rúv lækkar samanlagður kostnaður ríkisins vegna styrkja í fyrra frumvarpinu var úr 520 milljónum á fyrsta í 400 milljónir í nýju frumvarpi. Þá hafi verið bætt inn ákvæði um að endanlegt hlutfall sérstaks stuðnings ráðist af fjárframlögum á fjárlögum hverju sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×