Innlent

Kölluð til vegna kennara sem mætti í annarlegu ástandi á jólaföndur

Eiður Þór Árnason skrifar
Mál af ýmsu tagi komu inn á borð lögreglu á höfuðborgarsvæðinu í kvöld.
Mál af ýmsu tagi komu inn á borð lögreglu á höfuðborgarsvæðinu í kvöld. Vísir/vilhelm
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var á sjöunda tímanum í kvöld tilkynnt um annarlegt ástand kennara sem mætti á jólaföndur í Breiðholti á vegum skólans, er fram kemur í dagbók lögreglunnar.

Ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um atvikið að svo stöddu en ljóst er að nokkuð annasamt hefur verið hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu framan af kvöldi.

Einnig var tilkynnt um konu á níunda tímanum sem lá í götunni í miðbæ Reykjavíkur en talið var að ráðist hafi verið á hana. Þegar lögregla kom á staðinn reyndist hún vera ofurölvi og sagðist einungis hafa lagt sig um stund. Önnur kona var færð á slysadeild til aðhlynningar eftir að hafa runnið og dottið niður stiga á skemmtistað í miðbænum.

Á áttunda tímanum í kvöld barst lögreglu tilkynning um konu sem hrasaði fyrir utan verslun í Vesturbæ Reykjavíkur, talið er að hún hafi handleggsbrotið sig. Að lokum var tilkynnt um innbrot í heimahús og þjófnað í verslun.

Athugasemd ritstjórnar: Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur gefið út afsökunarbeiðni í kjölfar þessarar umfjöllunar og má lesa hana hér.

„Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu biðst afsökunar á umfjöllun um útkall hennar á skólaskemmtun í Breiðholti í gærkvöld, en frétt fjölmiðla var byggð á upplýsingum frá embættinu. Greint var frá aðila sem var í annarlegu ástandi, en af því mátti ráða að viðkomandi hefði verið ölvaður eða undir áhrifum fíkniefna. Svo var þó alls ekki heldur var um veikindi að ræða. Lögreglunni hafa borist, mjög svo réttilega, kvartanir vegna fréttarinnar og harmar hún mjög að hafa valdið fólki óþægindum og sárindum.

Ljóst er að mistök voru gerð við upplýsingagjöf og ekki var sýnd viðeigandi nærgætni enda um viðkvæmar upplýsingar að ræða.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vill því ítreka afsökunarbeiðnina og biður alla hlutaðeigendur velvirðingar.“





Fleiri fréttir

Sjá meira


×