Fótbolti

Íslensku strákarnir þurfa að gera það tvisvar sem hefur aldrei gerst áður

Óskar Ófeigur Jónsson í Istanbul skrifar
Ragnar Sigurðsson er eini leikmaður íslenska liðsins í dag sem hefur skorað í keppnisleik í nóvember.
Ragnar Sigurðsson er eini leikmaður íslenska liðsins í dag sem hefur skorað í keppnisleik í nóvember. Getty/Stuart Franklin
Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu hefur aldrei unnið mótsleik í nóvember en þarf að vinna tvo slíka á næstu dögum ætli liðið sér að komast áfram á EM upp úr H-riðli undankeppni EM 2020.

Aðeins sigrar á Tyrklandi og Moldóvu duga íslensku strákunum en að auki þurfa þeir að treysta á það að Tyrkir misstígi sig á móti Andorra.

Íslensku landsliðsmennirnir þurfa nú að endurskrifa sögu landsliðsins og gera það tvisvar sem hefur aldrei gerst áður.

Íslenska landsliðið hefur alls leikið ellefu keppnisleiki í næstsíðasta mánuði ársins og níu þeirra hafa tapast.

Leikirnir sem Ísland hefur fengið eitthvað út úr voru tveir jafnteflisleikir, annar á móti Írlandi árið 1996 og hinn var fyrri umspilsleikurinn á móti Króatíu en það er líka eini heimaleikur Íslands í nóvember.

Ísland hefur tapað fjórum síðustu keppnisleikjum sínum í nóvember en sá síðasti var 2-0 tap á móti Belgíu fyrir rétt tæpu ári síðan.

Aðeins þrír leikmenn hafa skorað fyrir Ísland í keppnisleik í nóvember en þeir eru Pétur Pétursson á móti Wales árið 1984, Eyjólfur Sverrisson á móti Frökkum árið 1991 og Ragnar Sigurðsson á móti Tékkum árið 2014. Markatalan er 17 mörk í mínus eða 3-20.

Keppnisleikir Íslands í nóvembermánuði

2-1 tap fyrir Wales 1984 (Undk. HM 1986)

3-1 tap fyrir Frakklandi 1991 (Undk. EM 1992)

1-0 tap fyrir Sviss 1994 (Undk. EM 1996)'

1-0 tap fyrir Ungverjalandi 1995 (Undk. EM 1996)

0-0 jafntefli við Írland 1996 (Undk. HM 1998)

3-0 tap fyrir Danmörku 2007 (Undnk. EM 2008)

0-0 jafntefli við Króatíu 2013 (Umspil HM 2014)

2-0 tap fyrir Króatíu 2013 (Umspil HM 2014)

2-1 tap fyrir Tékklandi 2014 (Undk. EM 2016)

2-0 tap fyrir Króatíu 2016 (Undk. HM 2018)

2-0 tap fyrir Belgíu 2018 (Þjóðadeildin 2018-19)

Samtals:

0 sigrar, 2 jafntefli og 9 töp í 11 leikjum

Markatala: -17 (3-20)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×