Fótbolti

Hafa ekki enn fengið á sig mark á heimavelli í undankeppninni

Óskar Ófeigur Jónsson í Istanbul skrifar
Tyrkir hafa náð frábærum úrslitum í þessari undankeppni og þar á meðal í París. Caglar Soyuncu, Irfan Can Kahveci, Merih Demiral, Cenk Tosun og Hakan Calhanoglu fagna dýrmætu stigi á Stade de France.
Tyrkir hafa náð frábærum úrslitum í þessari undankeppni og þar á meðal í París. Caglar Soyuncu, Irfan Can Kahveci, Merih Demiral, Cenk Tosun og Hakan Calhanoglu fagna dýrmætu stigi á Stade de France. Getty/Aurelien Meunier
Tyrkir hafa verið magnaðir í þessari undankeppni og nánast fullkomnir á heimavelli. Þetta verður fimmti heimaleikur Tyrkja í keppninni en þeir hafa unnið hina fjóra án þess að fá á sig mark.

2-0 sigur á Frökkum í mars stendur vissulega upp úr en þá hafði tyrkneska landsliðið þegar unnið 4-0 heimasigur á Moldóvu.

Tveir síðustu heimaleikir hafa reyndar unnist með minnsta mun eftir mark á lokamínútunum.

Cenk Tosun tryggði Tyrkjum 1-0 sigur á Albaníu með marki á 90. mínútu í október og mánuði áður skoraði varamaðurinn Ozan Tufan eina markið í sigri á Andorra með marki á 89. mínútu leiksins.

Tyrkir hafa alls fengið á sig þrjú mörk í leikjunum átta en það eru aðeins þrjár þjóðir í allir undankeppninni sem hafa fengið á sig færri.

Belgar hafa aðeins fengið á sig eitt mark en mótherjar nágrannanna Úkraínu og Póllands hafa skorað tvö mörk. Tyrkir eru með Ítalíu í 4. til 5. sæti yfir bestu varnir undankeppninnar til þessa.

Heimaleikir Tyrkja í undankeppni EM 2020:

4-0 sigur á Moldóvu

2-0 sigur á Frakklandi

1-0 sigur á Andorra

1-0 sigur á Albaníu

Fæst mörk fengin á sig í riðlinum

3 - Tyrkland

5 - Frakkland

10 - Ísland

10 - Albanía

16 - Andorra

22 - Moldóva

Fæst mörk fengin á sig í undankeppni EM 2020:

1 - Belgía

2 - Úkraína

2 - Pólland

3 - Tyrkland

3 - Ítalía

4 - Írland

4 - Rússland

5 - Sviss

5 - Danmörk

5 - Frakkland

5 - Spánn

6 - England

6 - Portúgal

6 - Þýskaland

6 - Króatía

6 - Wales




Fleiri fréttir

Sjá meira


×