Fótbolti

Tók fyrirliðabandið af Artur en hélt honum í liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson í Chisinau skrifar
Artur Ionita var áður fyrirliði moldóvska landsliðsins en er það ekki eftir að nýr þjálfari tók við.
Artur Ionita var áður fyrirliði moldóvska landsliðsins en er það ekki eftir að nýr þjálfari tók við. Getty/TF-Images
Engin Firat er nýtekinn við moldóvska landsliðinu og hann breytti mörgu fyrir fyrsta leik þar sem Moldóvar stóðu í heimsmeisturum Frakka.

Firat skipti ekki aðeins leikmönnum út, heldur breytti hann einnig um leikkerfi og tók fyrirliðabandið af hetju liðsins.

Artur Ionita er líklega einn frægasti leikmaður Moldóva í dag enda hefur hann spilað lengi á Ítalíu nú síðast með Cagliari. Ionita var líka fyrirliði moldóvska liðsins þar til að nýi þjálfarinn tók við.

Eftir að Engin Firat tók við moldóvska liðinu þá ákvað hann að Igor Armas yrði fyrirliði liðsins í fyrsta leiknum á móti Frökkum.

Igor Armas hafði þrisvar sinni áður verið fyrirliði Moldóvu síðast í tapleiknum á móti Albaníu í júní eða síðast í leik sem Artur Ionita missti af.

Igor Armas spilar sem miðvörður en Artur Ionita er inn á miðjunni.

Artur Ionita hélt samt sem áður sæti sínu í liðinu og spilaði allar 90 mínúturnar á móti Frökkum.

Igor Armas er þó leikjahæsti leikmaður liðsins með 56 landsleiki en þó hafa aðeins fimm þeirra komið eftir 2016. Armas er líka þremur árum eldri en Ionita.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×