Innlent

Aðskilja á Reykjalund og SIBS

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Óháð starfsstjórn yfir Reykjalundi á að mæta kröfum starfsfólks um aðskilnað við SÍBS og ráða nýjan forstjóra samkvæmt heimildum fréttastofu. Búist er við að starfsstjórnin verði kynnt á næstu dögum. SÍBS ætlar eftir sem áður að styrkja Reykjalund en skiptir sér ekki af neinni stjórnun.

Mikillar óánægju og uppsagna hefur gætt meðal starfsfólks Reykjalundar eftir skipritsbreytingar og að stjórnendum var sagt upp störfum. Í ályktunum undanfarið hefur starfsfólk óskað eftir að framkvæmdastjórn víki og skipuð verði óháð starfsstjórn yfir Reykjalund.

SIBS er eigandi Reykjalundar og hefur stjórn þar verið stjórn yfir Reykjalundi þar til hún sagði sig frá því hlutverki þann 22. október. Þá er stofnunin rekin á grundvelli samnings við heilbrigðisyfirvöld.

Fyrirtækið Intellecta hefur nú verið ráðið til að finna þrjár óháðar manneskjur í starfsstjórn yfir Reykjalund. Samkvæmt heimildum fréttastofu á hlutverk hennar að vera að ráða nýjan forstjóra yfir stofnunina en staðan var auglýst til umsóknar í Morgunblaðinu í dag. Þá á hún að kom með tillögur til að mæta kröfum starfsfólks um fullan aðskilnað Reykjalundar við SIBS þannig að rekstur stofnunarinnar verði sjálfstæður og stjórnin óháð SIBS.

Bryndís Haraldsdóttir formaður Hollvinasamtaka Reykjalundar vonar að sátt skapist um starfsemi Reykjalundar með nýrri starfsstjórn.
Búist er við að starfsstjórnin verði kynnt á næstu dögum og vinnan taki nokkrar vikur. Það komi í hlut hennar að meta hvort að framkvæmdastjórnin á Reykjalundi víki. Áfram verður gert ráð fyrir að SIBS styrki Reykjalund um þriðjung happdrættistekna sinna.

Bryndís Haraldsdóttir formaður Hollvinasamtaka Reykjarlundar vonar að nýrri starfsstjórn takist að skapa frið um starfsemina á Reykjalundi.

„Það er ekkert launungarmál að við í Hollvinasamtökunum ráðlögðum stjórn SIBS að setja á sérstaka starfsstjórn. Þau voru reyndar komin á stað með það þegar sú ályktun kom frá okkur. Ég held að það sé mikilvægt að það sé sérstök stjórn yfir Reykjalundi þ.e. ekki sú sama og er yfir SIBS. Þetta er stór heilbrigðisrekstur og tveir milljarðar á ári sem þangað fara frá ríkinu.  Það er þvíæskilegt að yfir Reykjalundi sé fólk sem þekkir þann rekstur vel og þá þarf það að njóta trausts starfsmanna og stjórnenda á Reykjalundi ásamt SIBS,“ segir Bryndís.  

Hún hvetur fólk til að finna lausn á núverandi stöðu.

„Fólk þarf að setjast niður og ná ró á staðinn svo hægt sé að byggja áfram upp þá frábæru starfsemi sem þarna er,“ segir Bryndís. 


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.