Innlent

Lækna-Tómas sá læknir sem skrifar mest út af viagra

Jakob Bjarnar skrifar
Með fullri reisn á toppinn. Viagra er lyf sem virkar ágætlega við hæðarveiki.
Með fullri reisn á toppinn. Viagra er lyf sem virkar ágætlega við hæðarveiki. visir/pjetur
Tómas Guðbjartsson hjarta- og lungnaskurðlæknir og fjallamaður upplýsti í morgun að hann væri sennilega sá læknir sem skrifar einna mest út af viagra sem þekkt er sem stinningarlyf.

Tómas var mættur í Bítið til að ræða háfjallaveiki en mjög fjallgöngur hafa færst mjög í aukana meðal landsmanna á undanförnum árum og fjölmargir klífa háa tinda í öðrum löndum. Fimmtungur þeirra sem fer yfir 3000 metra hæð finnur fyrir einkennum sem kalla má hæðarveiki. Og þegar menn eru að tala um bacecamp í Everest, sem dæmi, þá eru menn komnir upp í 4 til 5 þúsund metra hæð og þá er prósenta þeirra sem fá hæðarveiki 50 til 60 prósent.

Einkenni háfjallaveiki eru hausverkur, meltingartruflanir, svefntruflanir og ógleði.

Spurningu var beint til Tómasar frá hlustanda, hvort ekki væri rétt að viagra væri lyf sem gæti spornað gegn hæðarveiki og læknirinn sagði það vissulega svo vera.

„Viagra virkar á hæðarveiki, sérstaklega hæðarlungnabjúg. Og er stundum notað sem fyrirbyggjandi. Mörgum finnst það spennandi. Ég er sennilega sá læknir sem skrifar einna mest út af viagra. Það koma allir til mín og segjast vera að fara á einhver há fjöll. En það er staðreynd að það getur reynst vel og það er einmitt sérstakur kafli, minnst sérstaklega á þessi lyf; síalis og viagra en þau hafa áhrif á lungnaþrýsting.“

Hlusta má á viðtalið við Tómas í heild hér neðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×