Innlent

Fékk ekki að borða á veitingastað í London því hún er kona

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kristín Edwald er mikil veiðikona og í veiðiklúbbnum Strekktar línur.
Kristín Edwald er mikil veiðikona og í veiðiklúbbnum Strekktar línur. Fréttablaðið/Stefán
Kristín Edwald, lögmaður og veiðikona, segist aldrei þessu vant hafa orðið kjaftstopp þegar henni var tjáð í stangveiðiklúbbi í London í dag að konur væru ekki leyfðar á veitingastaðnum. Kristín greinir frá þessu á Facebook og staðfestir í samtali við Vísi.

Kristín lýsir því að eldri breskur herramaður hafi boðið henni til hádegisverðar í stangveiðiklúbbi í ensku höfuðborginni. Þegar hún hafi mætt á svæðið hafi starfsmaður veitingastaðarins sagt við breska herramanninn sem hafði boðið Kristínu og fleirum:

„Sorry but women are not allowed...“

Hún minnir á að árið sé 2019.

„Ég varð aldrei þessu vant kjaftstopp, vissi ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta,“ segir Kristín. Í framhaldinu hafi reiðin blossað upp í henni. En reglum staðarins var ekki breytt og Kristín fékk ekki að snæða á staðnum frekar en aðrar konur.

Kristín segist ekki líða misrétti af nokkru tagi, hvorki á grundvelli kyns, kynhneigðar, uppruna eða nokkurs annars.

Jón Þór Ólason formaður SVFR.
Jón Þór Ólason, lögmaður og formaður Stangaveiðifélags Reykjavíkur, segir í ummælum við færslu Kristínar að hún sé velkomin í félagið.

„Velkominn í SVFR Kristín - þar starfrækjum við öfluga kvennadeild og 2 magnaðar konur sitja í stjórn félagsins. Ömurlegt að heyra af svona steinaldar-hugsunarhætti. Annars kom nú fram hjá Loka á baksíðu DV er fyrsta konan settist í stjórn SVFR að nú væri síðasta vígið fallið. En nú er öldin önnur nema í landi þar sem drottning ræður ríkjum.“

Þórunn Guðmundsdóttir, fyrrverandi formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands sem starfar með Kristínu á lögmannsstofunni Lex, er hneyksluð eins og fleiri.

„Ertu að grínast? Ég hélt að þetta væri liðin tíð í landi Bretadrottningar. Ég meina, þeir hleyptu konum inn í golfklúbbinn á St. Andrews árið 2017. Ég hélt að það hefði verið síðasta vígið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×