Innlent

Þrjú hundruð manns funda um breytingar á stjórnarskránni

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Fundurinn er í Laugardalshöll.
Fundurinn er í Laugardalshöll. Vísir/Frikki
Breytingar á stjórnarskránni eru í brennidepli í Laugardalshöll um helgina þar sem um þrjú hundruð manns eru saman komin. 

„Þetta er liður í vinnu stjórnvalda í að breyta stjórnarskránni. Þannig að eftir þennan fund þá skrifum við náttúrulega skýrslu um niðurstöðurnar, gerum grein fyrir þeim umræðum sem hér fóru fram og hver viðhorf fólks eru bæði í upphafi og í lok. Þannig að það verður eitthvað efni sem að stjórnvöld geta síðan nýtt inn í sín frumvörp sem að eru um breytingar á stjórnarskránni,“ segir Guðbjörg Andrea Jónsdóttir forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem hefur umsjón með fundinum í Laugardalshöllinni.  

Fundargestir ræða nokkur afmörkuð atriði eins og embætti forseta Íslands, þjóðaratkvæðagreiðslur og þjóðarfrumkvæði, Landsdóm, breytingar á stjórnarskrá, kjördæmaskiptingu og atkvæðavægi og alþjóðasamstarf. Reynt var að bjóða fjölbreyttum hópi til fundarins. Hins vegar er fór það þannig að karlmenn eru töluvert fleiri á fundinum en konur og fleiri aldraðir en yngra fólk.

„Það er alltaf aðeins erfiðara að fá yngsta fólkið til þess að taka þátt í þessu og karlmenn eru gjarnan heldur viljugri heldur en konur til að taka þátt í svona vinnu en við reynum að tryggja það að hópurinn sem er hér endurspegli þjóðina sem best,“ segir Guðbjörg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×