Innlent

Hlífa við 80 þúsund króna sekt vegna veðurs

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vetrarfærð er nú á norðanverðu landinu og Vestfjörðum.
Vetrarfærð er nú á norðanverðu landinu og Vestfjörðum.
Ökumenn sem fara um Vestfirði á nagladekkjum verða ekki sektaðir, þrátt fyrir að „tími nagladekkjanna“ sé ekki runninn upp. Lögum samkvæmt má aðeins styðjast við nagladekk frá 1. nóvember til 14. apríl ár hvert. Sektir vegna notkunar nagladekkja utan þessa tíma hækkuðu í vor og eru nú 20 þúsund krónur á hvert dekk.

Lögreglan á Vestfjörðum segist ætla að horfa í gegnum fingur sér með bannið, enda séu „veðurfarslegar aðstæður orðnar með þeim hætti,“ eins og embættið kemst að orði á Facebook-síðu sinni.

Aðra sögu er að segja frá Akureyri, þar sem bæjarbúar hafa verið hvattir til þess að draga úr notkun nagladekkja í bænum. Nagladekk auka svifryksmengun, valda hávaða og slíta malbiki hraðar en önnur dekk.

Veðurstofan gerir ráð fyrir áframhaldandi snjósöfnun á norðanverðu landinu á morgun, Vestfjörðum þar með töldum. Jafnframt má búast við „vetraraðstæðum norðantil á landinu“ eins og veðurfræðingur kemst að orði: hálku, skafrenningi og lélegu skyggni á köflum.


Tengdar fréttir

Vilja ekki nagladekk

„Auðvitað togast þetta alltaf á, það er öryggismál og umhverfismál,“ segir Guðríður Erla Friðriksdóttir, sviðstjóri umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×