Innlent

Samstarf Íslands við ESB í loftslagsmálum fært inn í EES-samninginn

Kjartan Kjartansson skrifar
Gunnar Pálsson, sendiherra Íslands, fer með formennsku í sameiginlegu EES-nefndinni. Við hlið hans stiru Hege Marie Hoff, varaframkvæmdastjóri EFTA.
Gunnar Pálsson, sendiherra Íslands, fer með formennsku í sameiginlegu EES-nefndinni. Við hlið hans stiru Hege Marie Hoff, varaframkvæmdastjóri EFTA. EFTA
Sameiginlega EES-nefndin samþykkti að fella samkomulag Íslands og Evrópusambandsins um sameiginlegt losunarmarkmið gagnvart Parísarsamkomulaginu inn í EES-samninginn í dag. Með samkomulaginu nær samstarfið í loftslagsmálum til fleiri losunaruppspretta en áður.

Íslensk stjórnvöld tilkynntu árið 2015 að þau ætluðu að taka þátt í sameiginlegu markmiði Evrópusambandsins og Noregs um 40% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda sem valda hnattrænni hlýnun fyrir árið 2030 miðað við losun árið 1990 gagnvart Parísarsamkomulaginu sem var undirritað það ár.

Í fyrra var tilkynnt að hlutdeild Íslands í sameiginlega markmiðinu yrði 29% samdráttur í losun árið 2030 borið saman við árið 2005 fyrir utan evrópska viðskiptakerfið með losunarheimildir (ETS) sem Íslands hefur átt aðild að frá árinu 2008. Stefna ríkisstjórnar Íslands er engu að síður 40% samdráttur í losun.

Samþykkt sameiginlegu EES-nefndarinnar í dag felur í sér að samkomulag Íslands og Noregs við Evrópusambandið um sameiginlega loftslagsmarkmiðið verður fellt inn í EES-samninginn. Samevrópska samstarfið nái ekki lengur aðeins til viðskiptakerfisins fyrir iðnað heldur einnig til losunar frá landbúnaði, samgöngum, úrgangi og byggingum auk kolefnisbindingar með landnotkun og skógnýtingu.

Með ákvörðun EES-nefndarinnar, sem er háð samþykki Alþingis, skuldbindur Ísland sig til bindandi árlegra markmiða um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda sem fellur utan ETS-viðskiptakerfisins frá 2021 til 2030. Þá þurfa íslensk stjórnvöld að tryggja að losun frá landnotkun, breyttri landnotkun og skógnýtingu verði jöfnuð út með kolefnisbindingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×