Innlent

Séra Þórir sendi kirkjunni umslag sem ekki má opna fyrr en ári eftir andlát hans

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Séra Þórir Stephensen
Séra Þórir Stephensen V'isir/Grafík

Kirkjuráð hefur móttekið umslag frá séra Þóri Stephensen, fyrrverandi dómkirkjupresti, sem ekki ekki má opna fyrr en einu ári eftir andlát hans. Biskup segir að ósk séra Þóris verði virt.

Þetta kemur fram á vef RÚV þar sem greint er frá því að Kirkjuráð hafi lagt umslag séra Þóris fram á fundi ráðsins þann 16. október síðastliðinn. Í fundargerð ráðsins segir einungis að umslag frá honum hafi verið lagt fram.

Á vef RÚV segir að umslagið sé ekki þykkt, það sé merkt með orðunum trúnaðarmál og að það skuli ekki opna fyrr en einu ári eftir andlát Þóris. Haft er eftir Agnesi M. Sigurðardóttur, biskupi Íslands, að umslagið hafi borist í september og að ósk Þóris um að það verði ekki opnað fyrr en einu ári eftir andlát hans verði virt.

Greint var frá því í fjölmiðlum á síðasta ári að séra Þórir hafi viðurkennt að hafa brotið kynferðislega á tólf ára gamalli stúlku fyrir um 65 árum. Þórir starfaði sem prestur um áratugaskeið en árið 2015, eftir að Þórir lét af störfum, leitaði þolandinn, þá í kringum sjötugt, til fagráðs kirkjunnar um meðferð kynferðisbrota og óskaði eftir hjálp.

Fagráðið brást við beiðni þolandans og fór fram sáttafundur sem Agnes Sigurðardóttir biskup Íslands sat, að ósk þolandans. Í samtali við fréttastofu á síðasta ári sagði Þórir um málið að hann hafi viðurkennt brot sitt, iðrast þess alla tíð og beðist fyrirgefningar, bæði fyrir guði og mönnum.

Í samtali við RÚV vildi Þórir ekki tjá sig um hvað kynni að leynast í umslaginu en að það væri ekki óalgengt að lagðar væru fram heimildir sem ekki ætti mætti nálgast fyrr en að höfundi látnum.


Tengdar fréttir

Segist hafa beðist fyrirgefningar fyrir guði og mönnum

Séra Þórir Stephensen viðurkennir að hafa brotið kynferðislega á tólf ára gamalli stúlku fyrir um 65 árum. Hann kveðst hafa iðrast brota sinna alla tíð en hann hafi beðist fyrirgefningar bæði fyrir guði og mönnum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.