Fótbolti

Lofar að Andorra geri allt til að taka stig af Tyrkjum

Kolbeinn Tumi Daðason á Laugardalsvelli skrifar
Þjálfararnir á hlaupabrautinni í kvöld.
Þjálfararnir á hlaupabrautinni í kvöld. Vísir/Vilhelm
Koldo Alverz, þjálfari karlalandsliðs Andorra í knattspyrnu, segir að Andorra muni gera hvað liðið geti til að ná í stig í lokaleik sínum í riðlinum gegn Tyrkjum. Svo gæti farið að Íslendingar eigi von um eitt tveggja efstu sætanna í riðlinum nái Tyrkir ekki í þrjú stig í Andorra.

Andorra hélt raunar jöfnu 0-0 allt þar til á 89. mínútu í fyrri leiknum gegn Tyrkjum. En Tyrkir hafa farið mikinn á lokamínútunum í leikjum sínum í riðlinum. Skoruðu sigurmark gegn Albaníu á föstudag í blálokin og svo jöfnuðu þeir seint í kvöld gegn Frökkum.

Alverz var spurður að því hvort Ísland gæti treyst á það að landslið Andorra gerði allt sem það gæti til að taka stig af Tyrkjum í lokaumferðinni.

„Við munum reyna ða ná í stig í síðasta leiknum. En ekki fyrir Ísland, heldur Andorra,“ sagði þjálfarinn spænski og glotti.

Andorra vann 1-0 sigur á Moldóvu á föstudaginn. Um var að ræða fyrsta sigurinn í 57 tilraunum í undankeppni EM. Allir hinir 56 leikirnir, hver einn og einasti, töpuðust. Það sama gerðist í kvöld.

En leikur Andorra og Tyrklands mun þó engu máli skipta fyrir okkur Íslendinga nema okkar menn vinni fyrst sigur í Tyrklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×